Glæsileg seiðaeldisstöð opnuð í Tálknafirði

Borðaklipping frá vinstri til hægri: Sigurður Pétursson, Aníta sumarstarfsmaður, Margrét umarstarfsmaður, Hermann – Nágranni okkar í Hjallatúni Helga sumarstarfsmaður, Patrik sumarstarfsmaður. Lengst til hægri er Stein Ove Tveiten forstjóri, sem heldur í borðann. Mynd: Eva Dögg Jóhannesdóttir.

Í dag var stærsta seiðaeldisstöð landsins opnuð í Tálknafirði. Stöðin er um 10 þúsund fermetrar að stærð og er öll hin glæsilegasta að gerð og búnaði. Kostnaðurinn er um 4 milljarðar króna. Það er fyrirtækið Arctic Fish ehf sem lét reisa stöðin  fyrir laxeldi fyrirtækisins. Í eldisstöðinni fer fram flókin starfsemi, allt frá klaki, frumfóðrun og til áframeldis í einu fullkomnasta vatnsendurnýtingarkerfi (RAS) í heimi.Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að stöðin nýtti jarðvarma til landeldis og væri eina  vatnsendurnýtingarstöðin í heiminum, svo hann vissi til, sem það gerði.

Höfuðstöðvar Arctic Fish eru á Ísafirði en nýja seiðaeldisstöðin er í raun landeldisstöð í botni Tálknafjarðar. Seiðaeldið er grunnurinn að sjókvíaeldis starfseminni. Seiðin eru alin áfram í sjóeldisstöðvum í Dýrafirði, Patreksfirði og Tálknafirði. Seiðaeldisstöðin er byggð með mögulega stækkun í huga samhliða frekari uppbyggingu sjóeldis Arctic Fish á Vestfjörðum.

Lengur á landi en í sjó

Arctic Fish fær frjóvguð hrogn frá Stofnfiski, stöð sem er á Suðurnesjum og elur upp í seiði sem síðan eru sett út í sjó. Sigurður benti á að landeldistíminn verður að líkindum lengri en sjóeldistíminn þar sem  stefnt er að því að þau verði orðin a.m.k. 200 grömm þegar þau verða sett út í sjókvíar. Við það styttist tíminn í sjókvíunum og ætlunin er að laxinn verði aðeins einn vetur í sjó en ekki tvo eins og nú er. Með því að ala seiði lengur áður en þau fara í sjó er auk þess dregið verulega úr líkum  á því að sleppifiskur leiti upp í ár til hrygningar sem minnkar líkur á mögulegri erfðablöndun.

Tíföldun á fimm mánuðum

Arctic Fish setti fyrstu seiðin út í sjó í Patreksfirði í  maí síðastliðnum. Fiskurinn í kvíunum er nú orðinn um 2 kg að þyngd og hefur því tífaldað þyngd sína á aðeins fimm mánuðum. Sett var út í 8 kvíar í Patreksfirði og 11 kvíar í Tálknafirði og hefur eldið gengið einstaklega vel og afföll verið afar lítil.

Sigurður Pétursson sagði að ein kví væri um 35 þúsund rúmmetrar að rúmmáli og því stærri en allar nýju byggingarnar í seiðaeldisstöðinni sem þekja 10 þúsund fermetra. þvermál einnar kvíar er um 150 metrar.

 

Stein Ove Tveiten, forstjóri flutti opnunarávarp. Hann sagðist vera stoltur af því að taka þátt í að taka stöðina í notkun. Margir hafa lagt mikið af mörkum svo af þessu hafi getað orðið, ýmis ljón hafi verið í veginum en tekist hafi að ljúka verkinu farsællega. Stein Ove sagði að seiðaeldisstöðin væri í hæsta gæðaflokki og nýtti bestu fáanlegu tækni. Þá væru frábærar aðstæður frá náttúrunnar hendi. Þá benti Stein Ove á að í Tálknafirði væri fyrir hendi mikil reynsla í langan tíma af fiskeldi eða alveg aftur til 1970.

Nýja stöðin notar meira en 5000 kílówött sem er meira en rafstöðvarnar í Tungu og Hvestu framleiða samanlagt. Að lokum lagði hann áherslu á að seiðeldið væri grunnurinn að laxeldinu og að markmiðið væri að vera með gæðaframleiðslu.

Að ræðunni lokinni sögn Bríet Vagna Birgisdóttir frá Þingeyri og  fjórir ungir starfsmenn klipptu á borða.

Bolvíkingarnir Baldur Smári Einarsson og Kristján Jón Guðmundsson brugðu sér til Tálknafjarðar til að samfagna, enda bíða þeir eftir því að Djúpið verði opnað fyrir fiskeldi. Myndir: Einar K. Guðfinnsson.

 

 

DEILA