Getraunaleikur Vestra fer vel af stað

Getraunaleikur Vestra, sem er hafinn að nýju eftir sumarfrí, fer vel af stað.  Ágætis þátttaka er í leiknum og hafa menn og konur verið að næla sér í fína vinninga í hverri umferð.

Hjá Getraunum Vestra er starfræktur svokallaður “stóri potturinn” – en þar gefst öllum möguleiki að kaupa hlutdeild í seðli sem sérfræðingar Vestra sjá um að tippa. Vinningar skiptast svo á milli einstaklinga eftir hlutdeild í pottinum. Það getur hver sem er tekið þátt í þeim stóra og eru framlögin frá 1.000 – 2.500.

Þorsteinn F. Þráinsson segir að það hafi hlaupið á snærið hjá Vestra hópnum með stóra pottinn í liðinni viku „því við vorum með 13 rétta, sem er að sjálfsögðu stefnan í hverri viku. Vinningurinn hljóðaði upp á 420.000kr og tífaldaðist því sú upphæð sem hver og einn setti í pottinn.“

Allur ágóði af sölu getraunaraðanna (27%) rennur óskiptur til Vestra.  Leikurinn fer að mestu leiti fram þannig að þáttakendur senda inn raðir á netfangið getraunir@vestri.is og sölumenn Vestra senda svo raðirnar inn í gegnum sölukerfi getrauna á félagsnúmeri Vestra. Það er allur gangur á því hversu margir eru um hverja röð, Team Hampiðjan er efst eftir 3 vikur, og hafa aðrir keppendur það eina markmið að komast upp fyrir Hampiðjuna.  Það eru 10 manns í liði Hampiðjunnar og greiða ca 630 kr pr mann og spila kerfisseðil með 487 röðum sem reynst hefur vel.

Nýjir þáttakendur geta fengið ráðleggingar frá sérfræðingum Vestra, sem eru eins og skilja má mjög drjúgir með sig þessa vikuna og vita allt um boltann. Allavega fram að næsta stóra potti.

Nýjir þáttakendur eru velkomnir, en við hittumst í Skúrnum við Húsið á laugardögum millli kl 11 og 13 eða 12 og 14 þegar sumartíma líkur, þar sem farið er yfir málin.

Hægt er að fylgjast með leiknum á facebook síðunni “Vestri – getraunir” og á heimasíðu Vestra   www.vestri.is/getraunir

Áfram Vestri.

DEILA