Frestun vegaframkvæmda í Strandasýslu: svör þingmanna

Veiðileysuháls. Mynd: Jón Halldórsson.

Bæjarins besta leitaði til stjórnarþingmanna um skýringar á því að framkvæmdir eru ekki hafnar við tvær vegaframkvæmdir í Strandasýslu, sem hefjast áttu 2018 og einnig var óskað eftir skýringum á því að nú væri i nýrri samgönguáætlun, sem kynnt hefur verið, lagt til að seinka framkvæmdum til 2025-29 eða um 7 -11  ár miðað við 2018. Þá voru þingmennirnir inntir eftir því hvort þeir hyggðust beita sér fyrir að þessar framkvæmdir yrðu unnar eins og gildandi áætlun gerir ráð fyrir.

Svör hafa borist frá þremur stjórnarþingmönnum og beðið er eftir svörum frá tveimur, ráðherrunum  Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur og Ásmundi Einari Daðasyni.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Framsóknarflokki:

„Ný samgönguáætlun hefur að leiðarljósi að auka öryggi á vegum en sömuleiðis að klára uppbyggingu aðalsamgönguleiða innan byggða og fjórðunga eins og raunin er hér á Vestfjörðum. þetta er stór liður í að viðhalda og efla atvinnusvæðin og færa byggðalög til nútímasamganga. Þetta eru mikilvægir þættir sem við verðum að sameinast um. Það á einnig við um aðrar bætur á vegum í kringum landið sem landsmenn hafa beðið eftir. En þrátt fyrir að við séum að eygja langþráð markmið í samgöngumálum hér á Vestfjörðum eru þættir eins og að fresta Innstrandarvegi og framkvæmdum við Veiðileysisháls ekki ásættanlegir og mikilvægt að við vinnum áfram að því að færa þá nær í framkvæmdatíma.“

Haraldur Benediktsson, Sjálfstæðisflokki:

„Þingmenn koma ekki að undirbúningi að tillögum ráðherra.  Áætlunin er í samráðsferli. Aðkoma okkar undan ár hefur verið bæði Veiðileysuháls og Innstrandarvegur haldi stöðu sinni á tímalínu. Ég vísa einnig til nefndarálits meirihluta samgöngunefndar í vor í þessum efnum.

Þrýstingur á að flýta framkvæmdum vegna Dynjandisheiði og fleiri framkvæmdir eru forgangsröð Vestfirðinga.

Almennt má segja að þingmenn NV standi frammi fyrir því að mjög mikilvægum framkvæmdum er frestað víða um kjördæmið þar sem langsamlega mest af nýfrakvæmda fé vestursvæðið fer á Vestfirði.  Það hefur enn verið samstaða um það. En ég skynja vaxandi óþol á öðrum svæðum i kjördæminu gagnvart því.

Ég vil líka segja að forgangsröð FV hefur vægi í þessu.

Strandasýsla er í dag eitt af veikustu svæðum kjördæmisins. Ekki bara Árneshreppur. Við höfum átt samtöl við starfsmenn byggðamála í sveitarstjórnarráðuneytinu vegna þess. Við þurfum sem þingmannahópur að fara dýpra í þá umræðu með heimamönnum.

Eins og ég hef áður sagt við Vestfirðinga þá er þeirra eiginforgangsröðun mikilvæg. Ég veit ekki ennþá hvernig endanleg tillaga til endurskoðunar á samgönguáætlun mun hljóma.

Komi meira fjármagn, sem ég býst ekki við, á vestursvæði vegagerðarinnar eru aðrir landshlutar líka mjög sveltir.

Að lokum vil ég nefna að mér finnst áríðandi að ræða endurskoðun á fyirkomulagi á vetrarþjónustu við Árneshrepp. Því má heldur ekki gleyma að við breytingar sem fjárlaganefnd hefur áður gert var tryggt að slitlag var lagt á flugvöllinn á Gjögri.“

Lilja Rafney Magnúsdóttir:

„Ég hef ekki fengið skýringu á af hverju lagt er til að  þessum framkvæmdum verði frestað og mun beita mér fyrir því að þær hefjist sem fyrst.“

 

DEILA