Formaður Fjórðungssambandsins: hvernig getum við eflt Vestfirði með samvinnu?

Frá setningu Fjórðungsþingsins. mynd: vestfirdir.is

Hafdís Gunnarsdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga velti því upp í setningarræðu sinni á Fjórðungsþinginu í morgun hvernig unnt væri að efla Vestfirði með samvinnu sveitarfélaga.

„Getum við mögulega bætt þjónustu okkar við íbúa með samvinnu? Getum við mögulega farið betur með fé útsvarsgreiðenda með samvinnu? Getum við eflt Vestfirði með samvinnu? Ef möguleiki er á að svarið sé já ber okkur kjörnum fulltrúum skylda til að kanna það til hlítar.“

Lögþvingun ósanngjörn

Hafdís sagði að það væri  ósanngjarnt að sveitarfélög á Vestfjörðum stæðu frammi fyrir því að vera þvinguð til sameiningar.

„En það er von mín að við getum rætt tækifærin sem felast í samvinnu án þess að láta tillögu ráðherra um lögþvingaðar sameiningar koma í veg fyrir samtalið. Það er skylda okkar að veita íbúum okkar bestu mögulegu þjónustu. Það er einnig skylda okkar að gera það sem er best fyrir Vestfirði og við sveitarstjórnarfólk vinnum sem ein heild að stórum hagsmunamálum. Það er eina leiðin til að efla Vestfirði sem heild.“

fótunum kippt undan Vestfirðingum

Hafdís Gunnarsdóttir rifjaði það upp að fyrir ári við upphaf Fjórðungsþings hefðu sveitarstjórnarmenn setið sem dofnir eftir fréttir um að úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hafði fellt úr gildi bæði starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrir laxeldi í Tálknafirði og Patreksfirði. „var fótunum hreinlega kippt undan okkur Vestfirðingum, með nánast einu pennastriki“ sagði Hafdís.  Allur tími og kraftur hafi farið í björgunarstörf fyrir Vestfirði.

framfarir í samgöngum

Á næsta ári mundi Fjórðungssamband Vestfirðinga halda áfram í hagsmunabaráttu fyrir fjórðunginn og verða þar samgöngumál og atvinnumál eflaust fyrirferðamest. Minnti Hafdís á að framunan á næsta ári og  væri að ljúka Dýrafjarðrgöngum og bjóða út veg um Gufudalssveit og „þá hefur Dynjandisheiðinni verið komið framar í samgönguáætlun sem þýðir að norður- og suður- Vestfirðir verða loksins eitt atvinnusvæði. Bíldudalsvegur er einnig komin framar í samgönguáætlun, en þyrfti þó að komast enn framar.“

Vek Hafdís því næst að samgöngumálum í Strandasýslu.

„Baráttan okkar á næsta ári, og er hún nú þegar hafin, mun að mestu snúast um Strandasvæðið og Árneshrepp og koma samgöngum þar í mannsæmandi horf. Það er algjörlega réttmætt krafa að Innstrandavegur komist framar í samgönguáætlun, enda hluti af vegi fyrir þjónustusókn íbúa Strandabyggðar. Íbúar Árneshrepps hafa barist með aðdáunarverðum hætti fyrir tilverurétti sínum og tækifærum til að efla byggðina t.d. með virkjun Hvalár. Manni fallast því hendur um nýjustu áform um fimm ára bið á framkvæmdum á Veiðileysuháls. Fólk er bara að biðja um að komast heim til sín.“

DEILA