Fjórðungsþing Vestfirðinga styður Hvalárvirkjun

Strandamennirnir Ingólfur Haraldsson, Drangsnesi og Guðfinna Hávarðardóttir, Strandabyggð á haustþingi Fórðungssambandsins á Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Tillaga stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga um raforkumál var samþykkt með yfirgnæfandi atkvæðamun á Fjórðungsþinginu sem lauk á laugardaginn.

Í samþykktinni er fagnað því að áformað er að auka raforkuframleiðslu á Vestfjörðum með sjálfbærri nýtingu  vatns og vinds.  Fagnað er því að  nýr tengipunktur raforku í Ísafjarðardjúpi er komin á framkvæmdaáætlun Landsnets og segir í ályktuninni að þar með sé komið í farveg baráttumál Vestfirðinga um hringtengingu flutningskerfis raforku á Vestfjörðum eða svokallaðri N-1 tengingu. Þá segir:

„Bein áhrif þessa verkefnis verða úrbætur á afhendingaröryggi raforku á norðanverðum Vestfjörðum og Ströndum með nýjum flutningslínum, en óbeint inn á sunnanverða Vestfirði með aukinni flutningsgetu.“

Hér var verið í raun að álykta um Hvalárvirkjun og var beðið með nokkurri eftirvæntingu eftir afstöðu sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum. Atkvæðagreiðsla var hins vegar í góðu samæmi við  þau sjónarmið sem fram komu á fundi sveitarstjórnarmanna með alþingismönnum kjördæmisins í Flókalundi í lok september. Með tillögunni greiddu 16 og einn var á móti.  Það var Jón Jónsson, Strandabyggð sem greiddi atkvæði gegn ályktuninni og Jón Gísli Jónsson, oddviti í Strandabyggð sat hjá.

DEILA