Í listinn vill byggja fleiri íbúðir

Í listinn á Ísafirði lagði til á bæjarstjórnarfundi í gær aðgerðir til þess að fjölga íbúum og íbúðum. Gert er ráð fyrir að bærinn leggi fram hlutafé í félag sem standi að nýbyggingu íbúðarhúsnæðis. Félagið muni síðan kaupa óbyggðar íbúðir og þannig leggja fram fjármagn til byggingarinnar. þær verði síðan seldar þegar dregur að verklokum.

Sigurður Jón Hreinsson mælti fyrir tillögunni. Hafdís Gunnarsdóttir, formaður bæjarráðs sagði að tillögunni hefði verið vísað til bæjarráðs til frekari skoðunar. Hún sagði að það væru áhugaverðar hugmyndir í tillögunni en það væri samt að hennar mati betra að einkaaðilar hefðu frumkvæði að byggingu húsnæðis.

Tillagan sem lögð var fram:

„Bæjarfulltrúar Í-listans leggja til að Ísafjarðarbær leggi til hlutafé í stofnun félags sem hafi þann tilgang að stuðla að nýbyggingu íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu.
Félagið starfi með þeim hætti að kaupa álitlegar óbyggðar íbúðir sem skortur er á markaði og setji aftur á söluskrá þegar styttast fer í verklok byggingarframkvæmda.
Í fyrsta áfanga hafi félagið heimild til að eiga allt að þrjár íbúðir á hverjum tíma.
Lagt er til að gert verði ráð fyrir kostnaði vegna þessa félags í yfirstandandi fjárhagsáætlunarvinnu fyrir árið 2020.
Í Húsnæðisáætlun Ísafjarðarbæjar sem kynnt var í nóvember 2018, er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi um á bilinu 400 til 800 á á næstu 4-5 árum.
Hærri talan miðast við miðspá II mannfjöldaspár sem nánar er komið að í skýrslunni og forsendur hennar gera ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu fiskeldis og aukna ferðaþjónustu í sveitarfélaginu.
Að gefnum forsendum er þörf á nýjum íbúðum í sveitarfélaginu 10-25 íbúðir ári á árabilinu 2019 – 2022 að gefnum forsendum um mannfjöldaþróun og lýðfræðilegar breytingar.
Þátttaka bæjarfélagsins í að fjölga íbúðum er liður í því að styðja að áðurnefndar spár um fjölgun íbúa gangi eftir.“

DEILA