
Aðeins einn alþingismaður Norðvesturkjördæmis mætti á Fjórðungsþing Vestfirðinga sem haldið var á Hólmavík á föstudag og laugardag. Það var Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en hann ávarpaði þingið sem fyrsti þingmaður kjrödæmisins. Aðrir þingmenn létu ekki sjá sig. Einn varaþingmaður ,sem jafnframt er bæjarfulltrúi á Ísafirði mætti , en var þar fyrst og fremst sem sveitarstjórnarmaður.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra flutti ræðu og fjallaði um sameiningarátak sveitarfélaga sem ríkisstjórnin stendur fyrir í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Sagði ráðherrann að með átakinu væri stefnt að aukinni sjálfbærni sveitarstjórnarstigins. Um byggðamál sagði ráðherrann að bestur árangur næðist ef heimamenn hafi forystuna á hendi og hvatti sveitarstjórnarmenn til þess að svara frumkvæði ríkisstjórnarinnar með því að setja fram sínar hugmyndir um aðgerðir. Sigurður Ingi sagði að í hans tíð sem ráðherra hefðu framlög til fjarskipta- og samgöngumála aukist um 25%.
Hverjum eru rýtingarnir merktir?
Fram kom mikil gagnrýni fram þingfulltrúum á seinkun vegaframkvæmda í Strandasýslu, einkum á Veiðileysuhálsi. Framkvæmdir áttu að hefjast 2018 samkvæmt nýjustu ákvörðunum en ekkert hefur gerst enn og nú er lagt til að seinka framkvæmdum til tímabilsins 2025 – 2029. Samgönguráðherra sagði það eitt að hann tæki þessa gagnrýni með sér.
Jón Jónsson, Strandabyggð, sagði að íbúaþróun í Strandabyggð væri mikið áhyggjuefni. En menn þyrftu að átta sig á því hverjir væri vinir okkar og hverjir ekki svo hægt væri að vinna að því að ná árangri fyrir sína heimabyggð. Hann var þungorður vegna ítrekaðra vanefnda á vegaframkvæmdum í Strandabyggð, og nefndi Innstrandaveg og Veiðileysuháls, og spurði „hverjum eru rýtingarnir í baki Strandamanna merktir?“
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungavík spurði ráðherrann að því það væri í alvöru ætlunin að innheimta veggjöld fyrir að aka um jarðgöng.
Bragi Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík sagði að eina raunhæfa aðgerðin væri að Vestfirðir yrðu eitt sveitarfélag.
Lilja Magnúsdóttir, Tálknafirði og Iða Marsibil Jónsdóttir, Vesturbyggð lögðu báðar mikla áherslu á bættar samgöngur sem væri lykilatriði. Lilja nefndi jarðgöng um Mikladal, milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar og Iða Marsibil sagði vanta fé til hafnarframkvæmda meðal annars vegna þess að bjart væri framundan í Vesturbyggð og uppbygging þar í gangi.
Annar gestur Fjórðungsþingsins var Aldís Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar sambands íslenskra sveitarstjórna og varði hún mestum hluta ræðu sinnar til að skýra afstöðu sambandsins til sameiningarátaksins sem er í andstöðu við mörg af fámennu sveitarfélögunum.