Fjórðungsþing: auka ýsukvóta

Fjórðungsþing Vestfirðinga ályktaði um ýsukvóta á þinginu á Hólmavík um síðustu helgi.

Skoraði þingið á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að endurskoða niðurskurð á ýsukvóta um 30% vegna mikillar ýsugengdar á grunnmiðum. Verði ekki úr bætt kemur til stöðvunar fiskveiða á grunnslóð við Vestfirði segir í ályktuninni.

Það var Ingólfur Árni Haraldsson, sjómaður á Drangsnesi sem tók málið upp á Fjórðungsþinginu og vakti athygli á því ófremdarástandi sem stefndi í að óbreyttu eftir verulegan niðurskurð á ýsukvóta. Ingólfur sagði í samtali við Bæjarins besta að bátar við Húnaflóa væru í verulegum vandræðum vegna ýsugengdarinnar. Þeir hefðu ekki kvóta fyrir þeirri ýsu sem veiddist og það torveldaði þeim að veiða þorskinn. Ástæðan væri óvenjumikil ýsugengd í Húnaflóa. Eðlilegt væri að auka ýsukvótann.

Ingólfur segir að yfirvofandi sé stöðvun veiða næstu daga vegna skorts á ýsukvóta, þar sem Fiskistofa hafi gefið það út að bátar án kvóta verði stöðvaðir.

 

Ýsan hefur verið að færa sig meira  norður fyrir land og talið er að það sé vegna hlýnunar sjávar. Útgefinn kvóti í ýsu var skorinn niður úr 45 þúsund tonn í 32 þúsund tonn. Fyrir vikið er erfitt að fá ýsukvóta leigðan og er verðið hátt.

Hafrannsóknarstofnun gefur þá skýringu helst á niðurskurðinum að veiðihlutfallið hafi verið lækkað úr 0,40 í 0,35 þar sem hlutfall kynþroska ýsu reyndist lægra en gert var ráð fyrir.

DEILA