Samþykkt var á haustþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga á Hólmavík sem haldið var á Hólmavík um síðustu helgi að unnin verði uppfærð heildaráætlun um jarðgangagerð á Vestfjörðum.
Í áætluninni verði metnir helstu jarðgangnakostir á Vestfjörðum og þeim forgangsraðað með tilliti til atvinnusóknarsvæða, verðmætasköpunar, sameiningu sveitarfélaga, þjónustu, umferðaröryggis og samfélagslegra áhrifa.
Horft verði sérstaklega til bættra samgangna með jarðgöngum svo sem undir Hálfdán, Mikladal, Kleifaheiði, Klettsháls og milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar. Einnig verði lögð áhersla á tvöföldun Breiðadals- og Botnsheiðarganga.
Heildstæð jarðgangnaáætlun yrði nauðsynleg fyrir baráttu Vestfirðinga fyrir nútímasamgöngum segir í ályktuninni.