Ferðþjónusta: Útflutningstekjurnar dragast saman um 6,5%

Í nýju riti hagdeildar Landsbankans er því spáð að samdráttur í ferðaþjónustu verði 34 milljarðar króna eða um 6,5% frá fyrra ári. Útflutningstekjur ferðaþjónustunnar verði þá 486 ma.kr. á þessu ári en til samanburðar námu þær 519 mö.kr. í fyrra.

Það er töluvert minni samdráttur en nemur hlutfallslegri fækkun ferðamanna á árinu. Minni samdráttur er skýrður með því að neysla hvers ferðamanns í erlendri mynt mun vaxa töluvert milli ára vegna breytingar á samsetningu ferðamanna eftir fall WOW air en þessu til viðbótar mun töluverð veiking krónunnar frá í fyrra einnig hafa mikil áhrif. gert er ráð fyrir að útflutningur farþegaflugs á þessu ári verði 143 ma.kr. og dragist saman um tæpa 39 ma.kr., eða 21,5%. Útflutningur vegna ferðalaga mun nema 343 mö.kr. samkvæmt spánni eykst um 6 ma.kr. eða 1,6%. Samdrátturinn í útflutningi ferðaþjónustu á þessu ári skýrist því nær eingöngu af samdrætti í farþegaflugi.

Árið 2020 telur Landsbankinn að útflutningstekjurnar verði um 516 ma.kr. og aukist um 30 ma.kr. eða 6,1% milli ára. Sú aukning verður fyrst og fremst borinn af auknum útflutningstekjum vegna ferðalaga. gert er ráð fyrir að útflutningur vegna ferðalaga verði 368 ma.kr. á næsta ári og aukist um 25 ma.kr. eða 7,4%. Útflutningstekjur farþegaflugs munu samkvæmt spánni verða 147 ma.kr. og aukast um 4 ma.kr. eða 3%.

DEILA