Dýrafjarðargöng – Framvinda í vikum 41-42

Hér er samantekt af því helsta sem gerðist í vikum 41-42 við vinnu Dýrafjarðarganga.

 

Klárað var að leggja frárennslis- dren- og ídráttarlagnir fyrir 11 kV rafmagn í hægri vegöxl í göngunum og á aðeins eftir að klára að leggja út eftir vegskálunum. Síðar verða svo lögð ídráttarrör fyrir stýristrengi og raflagnir sem liggja ofar. Eftir er að leggja rúmlega 400 m af drenlögn meðfram vinstri vegg í göngunum. Síðar í verkinu verður svo lagður 132 kV jarðstrengur eftir vinstri vegöxlinni.

 

Sem fyrr var unnið við uppsetningu á einangrunarklæðingu til vatnsvarna í göngunum ásamt því að haldið var áfram að sprautusteypa yfir klæðingarnar.

 

Búið er að steypa 9 hluta af 14 í yfirbyggingu vegskálans í Arnarfirði og alla sökkla nema tvo. Haldið var áfram með fyllingar meðfram vegskálanum í Dýrafirði. Í Dýrafirði var steypt fyrri steypan í  undirstöðu fyrir mastur og sökkli fyrir fjarskiptahús sem standa utan við munna.

 

Í Dýrafirði var unnið við fyllingar, niðurlögn á flórum við vegræsi og frágangi á fláafleygum og skeringum.

 

Klárað var að steypa sigplötur við brúna yfir Hófsá og er þar með allri meiriháttar steypuvinnu lokið í brúnum yfir Mjólká og Hófsá.

 

Á meðfylgjandi myndum má sjá fyllingavinnu við vegskálann í Dýrafirði, vegskálann í Arnarfirði, vinnu við lagnir í göngunum og horft eftir svæði sem hefur vatnsvörn í öllu sniðinu og búið að sprautusteypa yfir.

 

Fyrir hönd framkvæmdaeftirlits Dýrafjarðarganga

Baldvin Jónbjarnarson

DEILA