Drangsnes: rætt um lokun verslunar

Útibú Kaupfélags Steingrímsfjarðar Drangsnesi. Mynd: strandir.is

Á deildarfundi Kaupfélags Steingrímsfjarðar Hólmavík, KSH, fyrir skömmu var rætt um að loka verslun félagsins á Drangsnesi, en engar ákvarðanir teknar.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps ræddi málið á fundi sínum í síðustu viku. Bókað var að sveitarstjórn hafi miklar áhyggjur af stöðu mála og var oddvita falið að fylgjast með stöðunni og leita verðhugmynda í húsnæði og eignir Kaupfélagsins á Drangsnesi.

Finnur Ólafsson, oddviti sagði í samtali við Bæjarins besta að staða Kaupfélagsins á Drangsnesi væri grafalvarleg. Hann sagði að samfélagslegt hlutverk verslunarinnar fyrir Drangsnes , sem jafnframt þjónustar póstinn, væri mikið og sveitarstjórn hefði gríðarlegar áhyggjur af stöðu mála. Þess vegna hefði honum verið falið að fylgjast með framvindu mála og kanna verðhugmyndir í eignir Kaupfélagsins á Drangsnesi.

DEILA