Bygging fótboltahúss: ábyrgðarlaus út frá fjárhag bæjarins

Ein tillaga að knattspyrnuhúsinu.

Meirihluti nefndar um byggingu fjölnota knattspyrnuhúss hefur vísað til bæjarstjórnar  lokaskýrslu nefndarinnar og leggur til við bæjarstjórn að verkið verði boðið út í samræmi við fyrirliggjandi útboðsgögn. Þetta var ákveðið á fundi nefndarinnar í morgun.

Ekki var eining um þessa afgreiðslu. Einn nefndarmanna, Sigurður Jón Hreinsson, lagðist gegn ákvörðunum og segir í harðorðri bókun að  „Áformin um byggingu fótboltahúss eru ábyrgðarlaus út frá fjárhag bæjarins, kalla á umtalsverða hækkun á skuldum bæjarsjóðs og auka rekstrarkostnað bæjarins um tugi milljóna árlega.“

Boðar Sigurður að hann muni leggja fram eigin skýrslu með niðurstöðu um starf nefndarinnar til bæjarstjórnar, þegar málið verður tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi.

Bókunin í heild:

„Undirritaður getur engan veginn tekið undir þá niðurstöðu meirihluta nefndarinnar um að tímabært sé að bjóða verkefnið út og sem lesa má í drögum að lokaskýrslu. Að mati undirritaðs hefur nefndin m.a. ekki sinnt því hlutverki sínu að gera úttekt á staðarvali, skipulagi í kringum áætlaðan byggingarstað og áfangaskiptingu framkvæmda.
Þrátt fyrir ítrekaðar óskir undirritaðs um að skoða betur staðsetningu og skipulag á Torfnesi, með tilliti til bestu nýtingu á svæðinu og meðferð á skattfé bæjarbúa, var því alltaf hafnað á gundvelli þess að „ekki væri pólitískur vilji fyrir annari staðsetningu“. Að því leyti brást meirihluti nefndarinnar algerlega hlutverki sínu.
Að mati undirritaðs er langur vegur frá því að tímabært sé að setja í útboð byggingu fótboltahúss. Sem dæmi má taka:
Ekki hefur verið svarað þeirri spurningu, hvort að starfsmaður þurfi að vera í húsinu eða ekki.
Allar forsendur fyrir staðarvali því sem deiliskipulag byggir á, hafa reynst rangar.
Þessi áform um uppbyggingu á Torfnesi eru byggð á afar takmarkaðri umfjöllun og byggja í stórum atriðum á röngum gögnum, rökleysu, þversögnum, hringrökum og jafnvel blekkingum.
Áformin um byggingu fótboltahúss eru ábyrgðarlaus út frá fjárhag bæjarins, kalla á umtalsverða hækkun á skuldum bæjarsjóðs og auka rekstrarkostnað bæjarins um tugi milljóna árlega.
Undirritaður mun skila eigin skýrslu með niðurstöðu um starf nefndarinnar til bæjarstjórnar, þegar málið verður tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi.“

Bæjarins besta hefur um nokkurt skeið óskað eftir upplýsingum um fyrirhugað knattspyrnuhús, svo sem um staðsetningu, stærð, kostaðaráætlun, tímasetningar  og annað sem veitir upplýsingar um áformin, en hefur ekki fengið þær. Kristján Þór Kristjánsson, formaður nefndarinnar segir að skýrsla nefndarinnar verði send þegar þar að kemur.

 

DEILA