Bolungavík: vantar 53 milljónir króna í fasteignaskattstekjur

Meðaltekjur Bolungavíkurkaupstaðar af fasteignaskatti eru 54.000 kr pr. íbúa árið 2017 samkvæmt úttekt Haraldar Líndals Haraldssonar, sem hann vann fyrir kaupstaðinn. Eru þetta óvenjulágar tekjur miðað við önnur sveitarfélög. Þannig eru tekjur Seyðisfjarðarkaupstaðar 103 þúsund krónur pr. íbúa sem eru nærri tvöfalt hærri tekjur. Blönduósbær fær 83 þúsund krónur pr. íbúa af fasteignaskattinum, Stykkishólmur 97 þúsund krónur og Grundarfjarðarbær 93 þúsund krónur svo dæmi séu nefnd.  meðaltalstekjur allra sveitarfélaga er 110 þúsund krónur samkvæmt úttektinni.

Sé þessi mismunur milli meðaltalsins allra sveitarfélaga og Bolungavíkur, sem er 56 þúsund krónur á hvern íbúa uppreiknaður fæst að árlegar tekjur kaupstaðarins eru 53 milljónum króna lægri en meðaltalið.

Fasteignaskatturinn í Bolungavík er 0,5% af fasteignamati sem er svipað og hjá lestum sveitarfélögum. þeim er þó heimilt að hafa álagningarprósentuna hærri upp að 0,625%. Skýringa á þessum  lágu tekjum af fasteignaskatti virðist því að leita í öðrum atriðum en álagningarprósentunni. Einkum er bent á lágt fasteignamat og svo mismunandi álagningarprósentu

Athyglisvert er að Seyðisfjörður er með nærri tvöfalt hærri tekjur en Bolungavík þrátt fyrir það þessi tvö sveitarfélög séu bæði með mjög lágt fasteignamat og eru í tveimur neðstu sætunum í skýrslu Byggðastofnunar um fasteignamat á viðmiðunarhúsi í 30 sveitarfélögum.

DEILA