Bættar starfsaðstæður á leikskólum

Fyrir ári síðan stóð fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar frammi fyrir þeim vanda að geta ekki mannað stöður á leikskólum í sveitarfélaginu. Við heyrðum fréttir af sama vanda víðsvegar um landið þar sem leikskólabörnum var ítrekað vísað heim sökum manneklu. Ef einhver vafi var á mikilvægi leikskólastarfsmanna fyrir samfélagið var þeim vafa umsvifalaust eytt, þegar þessi vandi blasti við. Samfélagið hreinlega lamast án þeirra. Ljóst var að við þurftum að skoða vel hvernig hægt væri að bæta starfsaðstæður starfsfólks okkar á leikskólum svo störfin yrðu eftirsóknarverðari.

Fræðslunefnd ákvað því að setja á fót starfshóp til að finna lausnir á þessum vanda. Nefndina skipuðu fulltrúar foreldra, leikskólastjórnenda, leikskólakennara, starfsmanna leikskóla og fræðslunefndar. Þeim var falið það verkefni að skoða stærð barnahópa, vinnuaðstöðu starfsfólks og barna, leikrými og heildarrými barnahópa. Hann átti einnig að koma með hugmyndir að leiðum til að hvetja fólk til að fara í leikskólakennaranám, möguleikum á styttingu vinnuvikunnar og annað sem hópurinn taldi mikilvægt.

 

Tillögur starfshópsins voru kynntar fyrir fræðslunefnd í sumar og lagði hann fram eftirfarandi tillögur:

 

  1. Að breytingar yrðu gerðar á barngildisviðmiðum leikskólalíkansins þannig að 2 ára börn verði 2 barngildi í stað 1,6.
  2. Að bæjaryfirvöld og Vestfjarðastofa hefji viðræður við háskólana um að fjarnám verði í boði hér fyrir vestan til að auðvelda aðgengi fólks að leikskólakennaranámi og að námsstyrkur verði veittur til að fjármagna ferðir nema í námslotur.
  3. Að einungis verði talið til leikrýmis það rými sem börnin hafa að jafnaði aðgang að til leiks allan daginn og miðað sé við 3,5 fermetra leikrými á hvert barn. Þó verði að taka tillit til yngri barna. Lagt er til að horft sé til leikrýmis barna frekar en heildarrýmis leikskólans eins og nú er.
  4. Að kennarafundir fari fram í byrjun dags, kl.8-10 einu sinni í mánuði, alls 10 fundir á ári. Einnig komi til lokunar 1-2 klst. hluta úr degi þá daga sem leikskólinn lokar fyrir sumarfrí og opnunardag eftir sumarlokun, þar sem ekki er hægt að ganga frá húsgögnum og námsgögnum á meðan börnin dvelja á leikskólanum. Aðrir lokunardagar verða 4 sem nýttir verða til skipulags á kennslu og námskeiða.
  5. Að leikskólum verði heimilt að fara í vinnustyttingu til reynslu næstkomandi haust sem samsvarar því að starfsmaður í 100% starfi fær 3 klukkustundir í styttingu á viku, þ.e. vinni í heild 37 klst. vinnuvikur. Skoðað verður hvernig til tókst í lok skólaársins að vori 2020.
  6. Að sett sé 15 undirbúningstíma viðmið á hverja deild til að skipuleggja starfið. Þannig skapast jafnræði milli deilda til undirbúnings á faglegu starfi.

 

Eins og niðurstöðurnar gefa til kynna vann starfshópurinn virkilega flott og faglegt starf. Eiga þeir sem í henni sátu, ásamt starfsmönnum skólasviðs, skilið mikið hrós fyrir þeirra vinnu og því mikilvægt að vakin sé athygli á henni. Það er alveg ljóst að gæði þjónustu leikskólanna okkar munu aukast töluvert með innleiðingu þessara tillagna. Þegar þær voru birtar almenningi sköpuðust umræður í samfélaginu m.a. um að tímasetning kennarafundanna væri óheppileg. Því sendi fræðslunefnd tölvupóst á alla foreldra leikskólabarna og starfsmanna leikskóla og bauð þeim að senda inn umsagnir um tillögurnar. Alls bárust 3 umsagnir og í þeim öllum var lagt til að fundirnir yrðu ekki kl.8-10 heldur kl.14-16. Að höfðu samráði við leikskólastarfsfólk þykir sá tími ekki heppilegur þar sem yngstu leikskólabörnin er flest ekki vöknuð kl.14 eftir hvíldina.

 

Fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar lagði af stað í þessa vegferð til að bæta starfsaðstæður leikskólastarfmanna og barna og hvetja fólk til að gera leikskólana að sínum vinnustað. Ég vona svo innilega að með því að innleiða þessar metnaðarfullu tillögur starfshópsins nái hún markmiðum sínum íbúum Ísafjarðarbæjar til heilla.

 

Hafdís Gunnarsdóttir, formaður fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar

 

 

.

 

DEILA