Bæjarráð Ísafjarðar: hvetur til aukins samstarfs

Á Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið verður á Hólmavík um næstu heldi verður rætt um sameiningu sveitarfélaga. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í morgun ályktun sem það leggur fyrir Fjórðungsþingið.

Hvatt er til aukins samstarfs sveitarfélaganna og er sveitarstjórnarfólk hvatt til að leggja sig fram um að viðhalda samstöðu. Þannig verði hægt að bæta þjónustuna og byggja upp atvinnulíf.

 

„Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hvetur sveitarstjórnarfólk á Vestfjörðum til að vinna að auknu samstarfi sveitarfélaganna og leggja sig fram við að viðhalda samstöðu þar á milli. Með því að snúa bökum saman verða sveitarfélögin betur í stakk búin til að auka gæði þjónustu sem þau veita og styðja við uppbyggingu öflugs atvinnulífs. Þar erum við að hefja stórsókn og er gott samstarf lykillinn að árangri. Það er skylda okkar sveitarstjórnarfólks að vera stanslaust vakandi fyrir leiðum til að vinna betur saman, með þjónustu íbúa að leiðarljósi.“

DEILA