Á ráðherraráðstefnu um öryggi fiskiskipa í Torremolinos á Spáni undirrituðu um 50 þjóðir samning um að þau hygðust fullgilda Höfðaborgarsamþykktina, alþjóðlegan samning um öryggismál stærri fiskiskipa (24 metra og lengri), sem Ísland hefur í mörg ár þrýst á að verði fullgiltur.
Um mikil tímamót verður að ræða þegar samningurinn öðlast gildi en með yfirlýsingu landanna mun það gerast árið 2022, segir í fréttatilkynningu frá Samgönguráðuneytinu. Ísland skrifaði undir yfirlýsinguna en hafði fullgilt samþykktina árið 2013.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagði í ræðu sinni að Ísland hafi verið eitt af fyrstu ríkjum heims til að innleiða alþjóðlegar reglur um öryggi fiskiskipa. Reynslan hafi sýnt að á Íslandi hafi náðst eftirtektarverður árangur sem önnur lönd gætu horft til. Banaslysum á sjó hafi fækkað um 90% á árunum 1970 til 2010, og slysum fækkað úr 203 í 21.
Ráðherra hvatti aðrar þjóðir til að fullgilda Höfðaborgarsamþykktina. Ísland hefði borið gæfu til að fara í gegnum síðustu ár án mannskaða á sjó og nefna mætti að engin slík slys hefðu átt sér stað síðustu þrjú og hálft ár. Slíkt væri ómetanlegur árangur á heimsmælikvarða.
Ráðstefnan var haldin í samstarfi við Alþjóðsiglingamálastofnunina (IMO) og ríkisstjórn Spánar, með stuðningi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) og góðgerðarsjóða Pew (e. Pew Charitable Trusts). Yfir 500 fulltrúar hvaðanæva úr heiminum sóttu ráðstefnuna.