Að læra saman að vera við sjálf

Gestur vikunnar í Vísindaporti er Râna Campbell, starfsmaður hjá Vesturafli, geðræktarmiðstöð og umsjónarmaður Fjölsmiðjunnar. Í erindi sínu mun Râna kynna verkefni sem unnið var á vor- og haustdögum 2018 en þá voru haldnar tvær ljósmyndasýningar á Ísafirði með myndum eftir notendur Vesturafls, Starfsendurhæfingar Vestfjarða og Fjölsmiðjunnar. Sýningarnar voru afrakstur verkefnisins „Þjóðmyndir“ og voru þær einnig hluti af stærri rannsóknarverkefnum. Markmiðið var að skoða áhrifin af því að gefa fólki, og ekki síst þeim sem upplifað hafa erfiðleika í lífinu, tækifæri til að vinna saman og tjá sig á listrænan hátt á opinberum vettvangi. Râna mun segja frá verkefninu og rýna í helstu þætti þess: hvað það er að framkvæma samvinnurannsókn og hvaða möguleika það gæti falið í sér fyrir samfélagið að nota þessa aðferðafræði.

Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10.

Râna er með BA próf í heimspeki og frjálsum menntum (e. liberal arts) frá Concordia-háskólanum í Montreal, Kanada og meistarapróf í haf- og strandsvæðastjórnun frá Háskólasetri Vestfjarða/Háskólanum á Akureyri. Hún hefur lengi unnið með minnihlutahópum og jaðarhópum og hefur mikinn áhuga á þátttöku þeirra í list- og menningarlífi samfélagsins,  meðfram annarri list. Í meistararitgerð sinni skoðaði hún þetta mál í tengslum við siðfræði og safnafræði og verkefnið sem kynnt verður í Vísindaportinu er framhald af þessum áhuga.

Vísindaportið fer að vanda fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13. Allir velkomnir.

DEILA