Vestri vinnur enn – efstir í 2. deildinni

Nýi gerivgrasvöllurinn á dalvík er glæsilegt mannvirki. mynd:dalviksport.is

Knattspyrnulið Vestra er á miklu skriði í 2. deildinni í Íslandsmótinu. Liðið vann á laugardaginn fimmta leikinn í röð og er í efsta sæti deildarinnar með 39 stig þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir af mótinu. Vestri hefur tveggja stiga forskot á næsta lið, Leikni frá Fáskrúðsfirði. Tvö efstu liðin í deildinni vinna sér sæti í fyrstu deild á næsta keppnistímabili.

Vestra dugar að vinna tvo af síðustu þremur leikjunum til þess að verða öruggir um að komast upp um deild. Vestri á eftir tvo heimaleiki og eru þeir gegn tveimur neðstu liðunum og þriðji leikurinn sem eftir er erfiður útileikur  gegn Leikni.

Á laugardaginn heimsótti Vestri lið Dalvíkur/Reynis Árskógsströnd og vann 1:2 þar sem Pétur Bjarnason skoraði bæði mörk liðsins.

Bjarni Jóhannsson, þjálfari Vestra sagði að lið Dalvíkur hefði komið mest á óvart í sumar í deildinni fyrir góða frammistöðu. Liðið kom upp úr þriðju deild og hefur verið meðal efstu liða í sumar. Bjarni sagði að leikurinn hefði verið hörkuleikur, þar sem Vestri hefði ekki spilað sinn besta leik en taldi að úrslitin væru sanngjörn.

„Staðan er vænleg, en erfiðustu leikirnir eru eftir og enginn leikur er unninn fyrirfram“ sagði Bjarni.

Leikið var á nýjum gervigrasvelli á Dalvík og var þetta vígsluleikur vallarins.

DEILA