Vestri: úrslitaleikurinn í dag á Fráskrúðsfirði

Næstsíðasta umferð í 2. deildinni í knattspyrnu fer fram á morgun. Vestri trónir á toppi deildarinnar með tveggja stiga forskot á næsta lið sem er einmitt Leiknir Fáskrúðsfirði. Þessi lið eigast við á morgun í knattspyrnuhöllinni á Reyðarfirði, þar sem Leiknir spilar heimaleiki sína. Leikurinn fer því fram innandyra og er óháður veðri og vindum.

 

Vestri getur gulltryggt sæti sitt í fyrstu deildinni með sigri í leiknum í dag og verður þá líka öruggt með efsta sætið. Aðeins þrjú lið eiga möguleika á því að ná fyrsta eða öðru sæti deildarinnar. Auk þeirra tveggja sem spila saman á morgun Vestra og Leiknis er það lið Selfoss, sem er í þriðja sæti, fjórum stigum á eftir Vestra og tveimur stigum á eftir Leikni.

Ef Vestri og Leiknir gera jafntefli og Selfoss vinnur sinn leik þá verður Vestri efst fyrir lokaumferðina en Selfoss og Leiknir verða með jafnmörg stig í 2.-3.  sæti en Selfoss næði 2. sætinu á betri markamun. Leiknir má því illa við því að gera jafntefli.

Þriðji möguleikinn er að Vestri tapi fyrir Leikni. Þá nær Leiknir efsta sætinu, Vestri færi niður í 2. sætið einu stigi á eftir Leikni og ef Selfoss vinnur sinn leik þá verður það í þriðja sæti aðeins einu stigi á eftir Vestra.

jafnvel þótt Vestri tapi á morgun er staða þess góð því í síðustu umferð spilar Vestri á heimavelli gegn Tindastól, neðsta liði deildarinnar og með sigri í þeim leik fer Vestri upp um deild, óháð öðrum úrslitum. En ef Vestri næði ekki sigri í síðasta leiknum gæti tapast möguleikinn á að fara upp um deild.

Niðurstaðan: Vestri verður að vinna a.m.k. annan leikinn sem eftir er.

 

DEILA