Veitingamótið í golfi

Það sígur að hausti þó enn haldi golfvertíðin haldi áfram í Tungudal. En síðasta opna golfmót sumarsins var haldið á sunnudaginn var, Veitingamótið sem styrkt er af Veitingahúsum í Ísafjarðarbæ. Veitingastaðirnir sem styrktu mótið voru:

  • Tjöruhúsið Ísafirði
  • Húsið Ísafirði
  • Edinborgarhúsið Ísafirði
  • Mama Nína Ísafirði
  • Talisman Suðureyri
  • Thai tai Wee Ísafirði
  • Heimabyggð Ísafirði

Mótið var haldið með svokölluðu Texas Scramble fyrirkomu lagi þar sem tveir keppendur eru í liði. Þegar Texas Scramble er leikið leika tveir kylfingar saman í liði. Fer leikurinn þannig fram að báðir slá högg af teig, síðan velja þeir þann bolta sem þeim þykir vera í betri stöðu og slá báðir boltann þaðan. Sá sem á þann bolta sem kylfingunum þykir lakari færir því sinn bolta að bolta félaga síns. Sá sem átti betri boltann slær yfirleitt á undan og hinn á eftir. Eftir þau högg endurtekur ferlið sig allt þangað til boltinn er kominn í holuna. Mótið um helgina var spilað með forgjöf þar sem sameiginleg forgjöf keppanda var notuð.

Mótið átti að vera á laugardaginn en vegna veðurs var því frestað um sólarhring. Úrslitin voru þannig:

Í fyrsta sæti voru „Feðgarnir“, en það voru þeir Jakob Ólafur Tryggvason og Hjálmar Helgi Jakobsson, sem voru á 60 höggum en þeir voru með 7 í leikforgjöf. Í öðru sæti urðu „Allt bara gott“ en liðið skipuðu Anton Helgi Guðjónsson og Gunnsteinn Jónsson á 62 höggum með 1 í leikforgjöf. Í þriðja sæti  voru „Ernir“ en í því liði voru Neil Shiran Þórisson og Jón Gunnar Shiransson á 64 höggum og með 3 í leikforgjöf.

Eftir verðlaunaafhendingu var boðið upp á veitingar í Golfskála klúbbsins í Tungudal.

Enn er nokkuð eftir af golfvertíðinni og geta golfarar notið leiksins fram eftir hausti ef veður leyfir. Næstkomandi laugardag verður Bændaglíman háð sem er uppskeruhátíð Golfklúbbs Ísafjarðar. Í Bændaglímunni eru tvö lið, annað er valið af formanni klúbbsins og hitt af mótstjóra. Þetta er skemmtilegt fyrirkomulag og meira um gleði en keppni, þau auðvitað taki menn golfið alltaf alvarlega.

Tungudalurinn er byrjaður að skreyta sig með haustlitum og ekki amarlegt að njóta útvistar í þessari paradís Ísfirðinga við skemmtilegan leik.

 

DEILA