Tölum um Torfnes 2

Í lok apríl sl. skrifaði undirritaður grein 1 í þessari röð og fékk birta á bb.is.  Í þeirri grein var gerð tilraun til að vekja athyggli á því að áform um framkvæmdir á knattspyrnusvæðinu á Torfnesi eru gríðarlega kostnaðarsamar eða allt að 700 milljónum króna.  Umrædd áform eru byggð á afar takmarkaðri umfjöllun og byggja í stórum atriðum á röngum gögnum, rökleysu, þversögnum og hringrökum.

Förum aðeins yfir gögn málsins.

Upphaf málsins má a.m.k. að hluta til rekja til asahláku og gríðarlegra rigninga sem riðu yfir landið dagana 8. og 9. febrúar 2015.  Mikill vatnsagi var um allt land, holræsakerfi bæjarins höfðu ekki undan og allt fór á flot.  Knattspyrnusvæðið á Torfnesi var á kafi í vatni í einhvern tíma og töldu þá fróðir menn að keppnisvöllurinn væri endanlega ónýtur.  Í framhaldi af því setti þáverandi meirihluti fram þá stefnu að keppnisvöllurinn yrði lagður með gervigrasi og að settar yrðu snjóbræðslulagnir undir grasið, til að lengja árlegan nýtingartíma.

Skýrsla BÍ/Vestra

Innan fárra vikna hafði stjórn Boltafélags Ísafjarðar sent frá sér yfirlýsingu þar sem áformunum var fagnað en jafnframt lagt til að kannað yrði hvort að ekki væri hagstæðara að reisa knatthús í stað þess að gera ráð fyrir upphitun á vellinum.  Í framhaldi af því stofnaði BÍ starfshóp sem vann áfram með áðurnefnda hugmynd og skilaði starfshópurinn af sér skýrslu þann 2 júní 2016. (*1)

Það verður að segjast að þessi skýrsla eldist ekki vel.  Fyrir utan það að kostnaðartölur í skýrslunni hafa ekki reynst vera nærri nógu nákvæmar, þá eru þarna forsendur sem eru afar sérstakar:

  • Rekstrarkostnaður upphitaðs vallar er reiknaður út frá hæsta mögulega taxta eða allt að 17milljón króna árlega. Ekki gert ráð fyrir varmadælu, sem þó væri eðlileg ráðstöfun, og getur tekið hitunarkostnað niður um 2/3
  • Rekstrarkostnaður boltahúss áætlaður um 1,5 milljón kr á ári.
  • Lækkun framkvæmdarkostnaðar á gervigrasvelli um 44 milljónir og „lægri“ rekstrarkostnaður um 17 milljónir árlega, talin réttlæta nýja framkvæmd upp á um 250 milljónir.

Minnisblað Verkís 28. apríl 2017

Í deiliskipulagsvinnu sem sett var af stað vegna þessara hugmynda, var lengst af unnið með tvær mögulegar staðsetningar á hugsanlegu boltahúsi.  Annarsvegar sú staðsetning sem starfshópur BÍ/Vestra hafði lagt til, fyrir framan Vallarhúsið og hinsvegar sunnanverðu við núverandi Íþróttahús á Torfnesi.  Var Verkís fengið til að kostnaðargreina þessa tvo möguleika.  Minnisblaðið (*2) vegna þessa vekur fleiri spurningar en svör a.m.k. hjá undirrituðum.

  • Jarðvegsvinna og grundun fyrir húsið á núverandi gervigrasvelli talin kosta um 5 milljónir og vísað í rannsóknir frá 1998 sem heimildir (sjá meira um það síðar).
  • Skýrsluhöfundur kostnaðarmetur tjón á frjálsíþróttasvæði í öðru tilfellinu en metur ekki sem tjón að knattspyrnuvelli með endurstofnverð upp á 100 milljónir, sé slátrað í hinu tilfellinu.
  • Skýrsluhöfundur telur ranglega að önnur tillagan útiloki byggingu sundlaugar á svæðinu „eins og gildandi skipulag gerir ráð fyrir“ en hin tillagan haldi þeim möguleika opnum.
  • Þá er það sérstaklega tiltekið sem galli við aðra hugmyndina að; „Aðrir ókostir eru að áhorfendastúka verður ekki fyrir miðjum vellinum“

Út frá þessum gögnum var deiliskipulag fyrir svæðið ákveðið með byggingarreit fyrir boltahús fyrir framan Vallarhúsið.

Minnisblað Verkís 14 .júní 2018

Á fyrsta fundi nýstofnaðar Nefndar um byggingu fjölnota knattspyrnuhúss þann 15. ágúst 2018, var lögð fram nýtt minnisblað frá Verkís, með nýjum kostnaðartölum.  Þetta minnisblað er ólíkt hinu fyrra, nokkuð vel unnið og ítarlegt.  Tölurnar eru líka mjög ólíkar því sem áður hafði sést.

  • Í minnisblaðinu kemur fram að talið sé að kostnaður við að byggja boltahúsið geti verið á bilinu 525 – 595 milljónir króna.
  • Um grundun hússins var þetta sagt: „Dýpi niður á fastan botn er á bilinu 1,8 til að minnsta kosti 3,5 m. Það rímar við niðurstöður frá eldri rannsókn sem sýndi dýpi niður á fastan botn 2,5 til 4 m. Ekki var hægt að staðfesta hvar botn liggur í 2 gryfjum sökum óstöðugleika gryfjanna.“

Minnisblað Verkís 31. október 2018

Á fjórða fundi Nefndar um byggingu fjölnota knattspyrnuhúss, var lögð fram nýtt minnisblað frá Verkís (*4), með niðurstöður jarðtæknirannsóknar og frumkostnaðaráætlun.

  • Í minnisblaðinu kemur fram að talið sé að kostnaður við jarðvegsvinnu og fergingu áður en hægt er að reisa grunn húsins, sé á bilinu 45 til 54 milljónir króna. Vísað í sömu rannsóknir og áður, frá 1998 sem hafi sýnt álíka niðurstöður!

Minnisblað Verkís 18. desember 2018

Á fimmta fundi nefndarinnar, þann 20. desember 2018 var lögð fram enn ein skýrslan frá Verkís (*5), þar sem lagt var mat á stofnkostnað á annars vegar köldu húsi og hinsvegar einangruðu húsi.  Þá er þar jafnframt lagt mat á rekstrarkostnað vegna hússins.

  • Fram kemur að talið sé að óeinangrað hús kosti ca 500 milljón króna, en einangrað hús geti kostað uþb 600 milljónir króna.
  • Rekstrarkostnaður húsins er talin verða á bilinu 35 til 40 milljónir árlega.

Óásættanleg misræmi í tölum

Eins og sjá má af þeim tölum og upplýsingum sem lagðar hafa verið fram í þessu máli, er um að ræða gríðarleg frávik í beinum samanburði og eins má finna jafnvel enn stærri skekkjur eftir því hvað menn gefa sér sem forsendur.

  • Sjálft húsið sem í upphafi var talið kosta uþb 250 milljónir, hefur verið talið getað kostað allt að 600 milljónum. Nýjustu tölur gefa í skyn uþb 400 milljónir.
  • Rekstrarkostnaður húsins sem var í skýrslu BÍ/Vestra talin geta verið nálægt 1,5 milljónum króna og þannig sparnaður upp á 17 milljónir árlega (miðað við rekstur á snjóbræðslukerfis á fótboltavellinum) er kominn upp í 37 milljónir árlega og því neikvæður sparnaður upp á 20 til 30 milljónir.
  • Grundun boltahúsins á svæðinu fyrir framan Vallarhúsið, sem var talin kosta á bilinu 0 til 5 milljónir er nú talin kosta að lágmarki 45 milljónir.

Aðrar forsendur gefa aðrar niðurstöður

Það er ljóst að fjölmargt í þessari vinnu orkar vægast sagt tvímælis.  Sem dæmi er það athygglisvert að sjá það notað sem rök fyrir staðsetningu á húsinu, að ef þyrfti að færa núverandi keppnisvöll um einhverja metra, að þá yrði stúkan ekki lengur fyrir miðjum vellinum.  Miðað við þau rök, verður að teljast hæpið að Skotíþróttafélaginu verði leyft að stækka stúkuna til að bæta sína aðstöðu, eins og ég veit að áhugi er fyrir.

Draumurinn um sundlaug á Torfnesi er enn að flækjast fyrir, en rétt er að benda á að fleiri staðir en sunnanverðu við íþróttahúsið, koma líka til greina ef svo ólíklega færi að sundlaug rísi á svæðinu, á næstu árum.

Að gefa sér að ekki eigi að reikna slátrun á gervigrasvellinum sem kostnað, vegna þess að hvort eð er eigi að setja gervigras á keppnisvöllinn er dæmi um hringrök.  Eðlilegast er að gefa sem upphafsforsendu að húsið rísi á auðu svæði en að það sé viðbótarkostnaður að reisa húsið á Torfnessvæðinu.  Slíkar forsendur gæfu þá niðurstöðu að lang hagkvæmast væri að reysa húsið á auðri lóð, töluvert dýrara væri að byggja húsið við hliðina á íþrottahúsinu en lang dýrast að byggja það fyrir framan Vallarhúsið.

Hingað til hefur verið talað um að ekki verði starfsmaður í boltahúsinu.  Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir um hvort að það sé í samræmi við lög og reglur, hefur ekki fengist hreint svar við því.  Sé niðurstaðan sú að það þurfi starfsmann í húsið, hækkar árlegur rekstrarkostnaður þess töluvert.

Ábyrgðarlaus fjárfesting?

Í samræmi við 66.gr sveitarstjórnarlaga var fengin umsögn um áhrif byggingar boltahúsins á fjárhag bæjarsjóðs.  Reiknað er með að bygging boltahúsins verði fjármögnum með láni frá Lánasjóði Sveitarfélaga, en þó er óvíst er að hún fáist öll þaðan.

Skuldir við lánastofnanir munu væntanlega aukast verulega eða úr kr. 5,3 milljörðum í árslok 2018 í kr. 6,8 milljarða í árslok 2022, þar sem fleiri framkvæmdir eru einnig á teikninborðinu.  „Miðað við áætlunina stefnir í að reiknað skuldaviðmið skv. sveitarstjórnarlögum fari úr 101,1% í 118,7%.“

Árlegar afborganir langtímalána munu að líkindum hækki að sama skapi, úr kr. 339,8 millj. í kr. 480 millj. eða um kr. 140 millj. á tímabilinu. Áætlað er að vaxtagjöld og verðbætur fari úr kr. 244,6 millj. árið 2017 í kr. 355,5 millj árið 2022. Þannig eykst vaxtakostnaður á hvern íbúa úr kr. 66 þús. árið 2017 í kr. 96 þús. árið 2022, eða upp um 45%.

Beinn kostnaður bæjarsjóðs vegna boltahúsins og uppbyggingu knattspyrnuaðstöðu á Torfnesi, á næstu árum verður ca þessi:  Rekstrarkostnaður = 30 milljónir.  Afborganir á lánum = 35 milljónir (mv. 20 ára lán).  Vaxtakostnaður = 17 milljónir.  Samtals amk 82 milljónir króna árlega næstu árin.

Ekki er reiknað með að byggingin skili neinum tekjum í bæjarsjóð.  Rétt er að taka fram að gamli grasvöllurinn hefur sjaldan litið betur út en einmitt eftir umrætt vatnsveður í febrúar 2015.

Það er mín staðfasta trú að uppbygging íþróttamannvirkja bæti lífskjör bæjarbúa.  En það er ekki sama hvernig það er gert og skuldaaukning af þessu tagi mun sannarlega skerða lífskjöf íbúa bæjarins og draga allann mátt úr framkvæmdagetu bæjarsjóðs.

Það má alveg vanda sig betur en þetta !

Sigurður Hreinsson, bæjarfulltrúi Í-listans

 

 

DEILA