Þingmannafundur á mánudaginn – Hafnamál í forgrunni

Flókalundur. Mynd : flokalundur.is

Fjórðungssamband Vestfirðinga er að undirbúa fund með alþingismönnum kjördæmisins á mánudaginn kemur. verður fundurinn haldinn í Flókalundi að þessu sinni. Á fundinum verða rædd þau mál sem vestfirskir sveitarstjórnarmenn vilja taka upp og ræða við fulltrúa löggjafarvaldsins.

Af hálfu Fjórðungssambandsins er talin nauðsyn á að hafnarmál verði eitt af meginviðfangsefnum þingmannafundar að þessu sinni. Fjórðungssamband Vestfirðinga  hefur beðið fyrsta þingmann kjördæmisins Harald Benediktsson að sjá um að þingmannahópurinn undirbúi sig fyrir umræðuna. Gert er ráð fyrir  að lagt verði fram yfirlit um framkvæmdir og fyrirhugaðar framkvæmdir.

Í undirbúningsgögnum fyrir fundinn frá Fjórðungssambandinu segir að mál sem snerta öll sveitarfélög á Vestfjörðum séu málefni hafna og atvinnustarfsemi tengd þeim. „Sem öllum er kunnugt þá hafa framlög ríkisins frá hruni verið í algjöru lágmarki en hafa verið að aukast (en hægt) frá árinu 2017. En vegna þessara lágu framlaga þá hafa hafnarmál verið minna til umræðu á þingmannafundum á síðustu árum. Stór aukin atvinnustarfsemi á Vestfjörðum og áætlanir um viðbætur eða nýja starfsemi við hafnir hafa komið fram.“ Aðalsteinn Óskarsson hjá Fjórðungssambandi Vestfirðinga segir að almennt verði áhersla á innviðamál (hafnir, vegir, flug,gagnaflutninga og orkumál) og eins verði kynning á drögum að Sóknaráætlun Vestfjarða 2020-2024.

Til umræðu er almennt öll málefni sveitarfélaganna og samskipti þeirra (fjárhagsleg, opinber verkefni, lagasetning osfr.) við ríki og Alþingi.

DEILA