Þingeyri: vel sóttur íbúafundur

Frá íbúafundinum. Mynd: Kristján Þ. halldórsson.

Vel sóttur íbúafundur var haldinn á Þingeyri miðvikudaginn 11. september s.l. Fundurinn er árlegur íbúafundur sem haldinn er í verkefninu Öll vötn til Dýrafjarðar, sem er samstarfsverkefni íbúa, sveitarfélags, landshlutasamtaka og Byggðastofnunar og er hluti af verkefni Byggðastofnunar, Brothættum byggðum.

Frá fundinum er greint á vef Byggðastofnunar.

Í upphafi fundar fór verkefnisstjóri Allra vatna til Dýrafjarðar, Agnes Arnardóttir, yfir meginmarkmið verkefnisins sem skilgreind eru í verkefnisáætlun og hún fór einnig yfir árangurinn sem náðst hefur á árinu frá seinasta íbúafundi árið 2018.

Fram kom að búar eru ánægðir með þau áhrif sem Blábankinn hefur haft á ímynd Þingeyrar og samfélagið, má þar nefna t.d. að efla og tengja saman félagslíf mismunandi aldurshópa.

Unnið er að uppfærslu Þingeyrarvefsins og ætlunin er að nýta hann frekar til kynningar fyrir íbúa. Áhugi var fyrir því að halda áfram að reyna að sníða þjónustu almenningssamgangna betur að þörfum íbúa Þingeyrar og nærsveita, t.d. varðandi tómstundaakstur. Einnig var áhugi fyrir því að nýta stafrænar lausnir er varða heimsendingu á vörum úr matvælaverslunum á Ísafirði.

Rædd voru atriði er lutu að samgöngum og fjarskiptum. Þar má nefna flugvöllinn á Þingeyri, en honum hefur nú verið lokað. Íbúar horfa bjartsýnum augum á tækifæri sem fylgja munu opnun Dýrafjarðarganga.

Byggðakvóti var einnig til umræðu og íbúar vildu að unnið yrði að því að bæði byggðakvótinn og sértækur byggðakvótinn nýttist samfélaginu sem best.

Samtals  hefur 14 m.kr. hefur verið úthlutað til ýmissa verkefna, sem ýmist tengjast atvinnuuppbyggingu, menningu eða annars konar samfélagsverkefnum.

 

DEILA