Súðavík: vekur furðu að efla sveitarfélög með fækkum þeirra

Bragi Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.

Bragi Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík segir það vekja furðu sína að það sé eitthvert sérstakt keppikefli ríkisins að fækka sveitarfélögum landsins undir því yfirskyni að efla sveitarstjórnarstigið. Hann segist standa í þeirri meiningu að sveitarstjórnarstigið sé mjög öflug. Þá bendir hann á að ríkið hafi litla aðkomu sveitarfélagi eins og Súðavíkurhreppi og að það fari minnkandi með árunum.

fækkun vekur furðu

„Í Súðavíkurhreppi búa liðlega 200 manns og þar langflestir í Súðavíkurþorpi. Aðkoma ríkis er ekki mikil í Súðavíkurhreppi í dag. Þar er lágmarksþjónusta að heitið getur af hendi ríkisins í flestu sem talið er sjálfsagt víða. Það vekur því furðu undirritaðs að eitthvert sérstakt keppikefli eigi að vera að fækka sveitarfélögum landsins undir því yfirskyni að efla sveitarstjórnarstigið. Ég hélt í einfeldni minni að það væri mjög öflugt og kannski of öflugt miðað við höfðatölu og það sé kannski frekar eitthvað sem fer fyrir brjóstið á landstjórn.“

lítil aðkoma ríkis

„Ríkið hefur ekki neina gríðarlega aðkomu að sveitarfélagi eins og Súðavíkurhreppi, sú aðkoma minnkar ár frá ári. Orkumál í hreppnum eru líkt og þekkist víða um Vestfirði að vetri og mætti þar skoða í samhengi við möguleika á uppbyggingu. Þeir sem þekkja eitthvað til á Vestfjörðum vita hvernig er með aðföng, rafmagn og alla „sjálfsagða“ þjónustu til þess að geta rekið eða stofnað til atvinnurekstrar. Óþarft ætti að vera að telja fyrir amk Vestfirðinga hvað vantar á firðina sem varðar ríkið.“

hvaða sameiningarkostir eru?

Bragi var spurður um hvaða kosti til sameiningar Súðvíkingum myndi hugnast öðrum fremur.

„Hvaða sveitarfélag myndi, sem sameinast Súðavíkuhreppi, tryggja viðgang mannlífs, atvinnu og þjónustu í Súðavíkurhreppi til jafns við sitt svæði? Hvaða sveitarfélag eftir sameiningu gætir hagsmuna íbúa við Inndjúp?  Súðavíkurhreppur væri, ef til þyrfti, meira en til í slíkt samstarf við hvern þann sem leysir þessi mál og skilar sómasamlegri þjónustu til íbúa svæðisins og ekki lakar en það er í dag. Það er mat undirritaðs að sameining eigi ekki bara að fela í sér fækkun sveitarfélaga, heldur eigi það að skila báðum aðilum sameiningar betri stöðu eftir en fyrir var. Þarf þá að taka með í reikninginn samgöngur 365 – 366 daga á ári í Súðavíkurhreppi. Ekki bara aðra hverja viku að sumri til.

Nærtækast er að horfa til Ísafjarðarbæjar eða Bolungarvíkurkaupstaðar ef landafræðin á að ráða för. En nágrannar eru þó fleiri og kannski þarf, ef ekki semst vel í sameiningarátt, að líta í aðrar áttir. En það er bara fabúlering mín, ég tel mig ekki hafa umboð íbúa Súðavíkurhrepps til að bjóða upp í slíkan dans. Ég held að það sé ekki tímabært að viðra sameiningarkosti fyrr en málið hefur verið skoðað í heild, enda þarf að minnsta kosti tvo til þegar kemur að viðræðum.“

samvinna fremur en sameining

„Líkt og kemur fram í bókun sveitarstjórnarinnar í Heydal 30. ágúst er lagst gegn lögþvingaðri sameiningu út frá 250 íbúa marki og er það skoðun fundarmanna að til grundvallar slíkri sameiningu yrði að hafa þung rök og sjálfbærni sveitarfélaga felst ekki í hve margir búa á hverjum stað. Ég tel að samvinna milli þeirra 39 sveitarfélaga sem til stendur að sameina öðrum fram til ársins 2026 geti skilað frjóum og raunverulegum hugmyndum um það hvernig unnt sé að reka öflug, sjálfbær og sjálfstæð sveitarfélög. Sjálfbærni kann að vera vel möguleg burtséð frá íbúafjölda fái sveitarfélög að nýta rétt sinn til sjálfstæðis og ráða málum sínum líkt og stjórnarskrá gerir ráð fyrir. Þá er líka vert að velta því upp hvernig þjónusta flyst frá ríki til sveitarfélag og hvernig það er fjármagnað og hver situr uppi með ábyrgðina eftirá.

Ég á ekki von á öðru en að Súðavíkurhreppur geymi fólk sem þykir vænt um nágranna sína þrátt fyrir að vilja halda í sjálfstæði sitt til þess fá að ráða málefnum sínum og finna sjálft þegar knýjandi þörf kann að vera í sameiningarátt. Samvinna er eðlilegri kostur en að færa stjórnsýslu milli fjarða öðrum aðilanum til tjóns og minnkandi velferðar.“

DEILA