Skerðing sóknargjalda hjá Ísafjarðarsókn

Sr. Magnús Erlingsson við messu í Staðarkirkju í Grunnavík.

Í maí 2017 reiknaði Biskupsstofa út skerðingu sóknargjalda árin 2009 – 2017.  Allar tölur voru á verðlagi hvers árs.  Árið 2008 fékk Ísafjarðarsókn í sóknargjöld 19.149.120 krónur.  Síðan kom hrunið og þá ákvað Alþingi að skerða sóknargjöldin.  Lítum nú nánar á hvernig þetta hefur gengið til.

2009 fékk sóknin 18.272.688 krónur í sóknargjöld en upphæðin hefði átt að vera 20.294.968 hefði lögum um sóknargjöld nr. 91/1987 verið fylgt en þau lög voru sett þegar ríkið fékk kirkjuna og önnur trúfélög til að samþykkja það að sóknargjöldin yrðu felld inn í staðgreisluna, sem þá var tekin upp.  Skerðingin 2009 nam því 2.022.280 krónum.

2010 fékk sóknin 16.604.016 krónur en hefði átt að fá 20.369.036 miðað við fjölda gjaldenda sóknargjaldanna.  Skerðingin nam því 3.765.020 krónum.

2011 fékk sóknin 14.942.784 krónur en hefði átt að fá 19.901.519.  Skerðingin nam því 4.958.735 krónum.

2012 fékk sóknin 15.747.264 krónur en hefði átt að fá fá 22.574.748.  Skerðingin nam því 6.827.484 krónum.

2013 fékk sóknin 16.847.914 krónur en hefði átt að fá 23.892.667.  Skerðingin nam því 7.044.754 krónum.

2014 fékk sóknin 17.434.782 krónur en hefði átt að fá 24.586.668.  Skerðingin nam því 7.151.886 krónum.

2015 fékk sóknin 17.600.640 krónur en hefði átt að fá 25.226.160.  Skerðingin nam því 7.625.520 krónum.

2016 fékk sóknin 18.987.312 krónur en hefði átt að fá 26.451.144.  Skerðingin nam því 7.463.832 krónum.

2017 fékk sóknin 19.187.520 krónur en hefði átt að fá 27.738.480.  Skerðingin nam því 8.550.960 krónum.

Skerðing áranna 2009 til 2017 nam því samtals 55.410.470 krónum.  Og hér er ekki öll sagan sögð því að á þessu tímabili var Hnífsdalssókn sameinuð Ísafjarðarsókn og skerðingin hjá Hnífsdalssókn nam rúmum 200.000 krónum á þessu sama tímabili.  Þetta eru rúmar 55 milljónir á átta árum!

Nú flestir myndu hafa talið að hrunið væri afstaðið í árslok 2017.  En áfram heldur ríkið að skerða sóknargjöld, bæði 2018 og 2019 og ekki virðist Eyjólfur ætla að hressast með nýjum fjárlögum.

Nú kann einhver að spyrja:  Skiptir þetta nokkru máli, það er jú enn messað í Ísafjarðarkirkju?  En hyggjum að einu.  Umræddir preningar að upphæð 55 milljónir hefðu skilað sér inn í hagkerfið á Ísafirði því sparnaður Ísafjarðarsóknar hefur falist í því að segja upp fólki og setja viðhald á kirkjunni í salt, sem merkir minni vinnu fyrir iðnaðarmenn.  Hér er því enn eitt dæmið um niðurskurð ríkisins á Vestfjörðum því sömu sögu er að segja úr öllum sóknum.

Spurningin er hvenær ríkið ætli að standa við þá samninga, sem það gerði við Þjóðkirkjuna og önnur trúfélög landsins árið 1987 og Alþingi Íslendinga staðfesti með lagasetningu sama ár?  Skipta orð og undirskriftir íslenskra ráðherra engu máli?  Er þá heldur ekkert að marka lögin, sem Alþingi samþykkti um sóknargjöld árið 1987?

Það er vissulega mikið af tölum í þessum pistli.  En stóra spurningin er kannski ekki upphæðin heldur sú hvort það sé hægt að treysta því, sem stjórnmálamenn lofa og setja í lög.  Allir hafa skilning á því að þurft hafi að rifa seglin eftir bankahrunið í árslok 2008.  Þá var farið í sársaukafullan niðurskurð í heilbrigðiskerfi, vegamálum og á fleiri sviðum.  En smátt og smátt hafa þær skerðingar verið teknar til baka, – en ekki þegar kemur að kirkju og trúfélögum.  Og heldur ekki þegar kemur að kirkjugörðum landsins, þar er skerðingin enn meiri!  Það er eins og stjórnmálamenn haldi að þessir hlutir skipti litlu máli.

Trú, siðferði og andlegur auður eru hverju þjóðfélagi mikilvægir.  Og í fjrálsu lýðræðisþjóðfélagi eru slíkir þættir lífsnauðsynlegir.

 

Magnús Erlingsson.

DEILA