Sinfónían til Ísafjarðar

SAMSUNG DIGITAL CAMERA

Sinfóníuhljómsveit Íslands sækir Vestfirðinga heim og býður íbúum til  tónleika undir stjórn Daníels Bjarnasonar í Íþróttahúsinu Torfnesi fimmtudaginn 5. september kl. 19:30 og fjölskyldutónleika föstudaginn 6. September kl. 10:00.   Tónlistarfélag  og Tónlistarskóli Ísafjarðar fögnuðu sjötíu ára afmæli síðastliðinn vetur og  er afar ánægjulegt að fá Sinfóníuhljómsveit Íslands til að loka viðburðaríku afmælisári.

Þegar glæsileg efnisskráin er skoðuð vekur það sérstaka athygli að fjórir af fimm einleikurum og söngvurum sem fram koma með Sinfóníuhljómsveitinni eru Ísfirðingar, fæddir og uppaldir hér vestra og öll fyrrum nemendur Tónlistarskóla Ísafjarðar.  Fimmtudagskvöldið 5. september syngur Herdís Anna Jónasdóttir  vinsælar aríur og sönglög. Hún hefur glatt ísfirðinga með söng og hljóðfæraleik frá unga aldri ásamt vinkonu sinni Þórunni Örnu Kristjánsdóttur leik- og söngkonu sem einmitt verður sögukona á fjölskyldutónleikunum 6. september. Herdís Anna kom, söng og sigraði í hlutverki Violetu Valery í sýningu Íslensku óperunnar á La Traviata síðasliðinn vetur og er sérstaklega ánægjulegt að heyra hana og sjá  hér á  heimavelli. Ísfirðingurinn Mikolaj Ólafur Frach píanisti þreytir frumraun sína með hljómsveitinni aðeins 19 ára gamall og leikur kafla úr Píanókonsert númer nr.2, op.21 í f-moll eftir Chopin. Það er stórt skref fyrir svo ungan listamann að koma fram með sinfóníuhljómsveit og gleðilegt að það sé á heimaslóðum.  Hátíðarkór Tónlistarskóla Ísafjarðar kemur einnig fram með hljómsveitinni þetta sama kvöld.

Morguninn eftir, föstudaginn 6. september  býður Sinfóníuhljómsveitin öllum börnum á fjölskyldu- og skólatónleika sem hefjast kl. 10:00 en þar  verður flutt úrval tónlistar úr leikritum, leikgerðum og kvikmyndum sem byggjast á ævintýrum Astrid Lindgren. Þar koma fram barnakórar af svæðinu og hefur Bjarney Ingibjörg yfirumsjón með þeim. Þau Pétur Ernir Svavarsson og Þórunn Arna Kristjánsdóttir sem ísfirðingar þekkja vel  verða sögumenn. Óhætt er að búast við skemmtilegum tónleikum og eru foreldrar hvattir að til að koma með börn sín á þessa frábæru tónleika.

Já við sem búum hér í Ísafjarðarbæ erum svo sem ekkert hissa á því að listamennirnir séu meira og minna héðan. En ættum við ekki að vera hissa? Er sjálfsagt að svo lítið samfélag sem okkar búi yfir svo mörgum og góðum listamönnum? Hvað veldur?

Ég held að sköpunarkrafturinn í stórbrotinni Vestfirskri náttúru sé hluti ástæðunnar en ég leyfi mér að fullyrða að Tónlistarskóli Ísafjarðar,  stórhugur stofnenda hans, elja  starfsmanna og nemenda  eigi stóran þátt í henni líka. Ekki má gleyma foreldrum og forráðamönnum nemenda því mikilvægt er að fylgja börnum sínum eftir í námi, sýna tónlistarnámi þeirra áhuga og taka virkan þátt í starfi skólans því einungis þannig verður ánægja og árangur til.

Menntun er  grunnstoð okkar samfélags og þar leika tónlistarskólar og tónlistarmenntun stórt hlutverk. Hróður Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur borist víða um heim og hafa meðlimir hennar flestir hlotið tónlistarmenntun sína hér á landi. Mikilvægi tónlistarmenntunar er ótvíræð  og brýnt að stjórnvöld styðji myndarlega við tónlistarskóla landsins til framtíðar.

Ég  hvet Vestfirðinga alla sem einn að koma á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands fimmtudagskvöldið  5.september kl. 19:30 og föstudagsmorguninn 6. september kl. 10:00 og vek athygli á að frítt er inn á báða tónleika. Upplifum galdurinn saman!  Njótum tónlistarinnar því hún tekur við þegar orð þrjóta. Tónlistin er tungumálið sem allir skilja.

Ingunn Ósk Sturludóttir,

skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar

 

 

DEILA