Ríkisstjórnin: 2,3 milljarðar króna til sameiningar sveitarfélaga á Vestfjörðum

Ríkisstjórnin hefur sett í kynningu í samráðsgátt nýjar tillögur um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga, sem nú er til umsagnar í samráðsgátt Stjórnarráðsins, Tillögurnar fela í sér  að fjárhagslegur stuðningur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við sameiningar sveitarfélaga verði aukinn. Allt að 15 milljarðar gætu farið í þennan stuðning á næstu 15 árum ef sveitarfélögin nýta sér stuðninginn.

Nýju reglurnar auka framlögin frá því sem nú er á þrennan hátt: Skuldajöfnunarframlag eru aukin og lækka þau skuldir viðkomandi sveitarfélags,  tekin verða upp sérstök framlög  í fimm ár til að endurskipulagningu þjónustu og stjórnsýslu. Hámark eru 100 milljónir króna til sveitarfélags sem tekur þátt í sameiningu. Hvert og eitt sveitarfélag fær þessa fjárhæð. Í þriðja lagi með sérstöku framlagi, sem kallað er byggðaframlag,  til að rétta stöðu sveitarfélaga við sameiningu þar sem fjölgun íbúa hefur verið undir árlegri meðalfjölgun íbúa í sveitarfélögum á landsvísu.

2,3 milljarðar króna til Vestfjarða

Birt er tafla um stuðning til hvers og eins sveitafélags ef það sameinaðist einhverju öðru sveitarfélagi. reiknað er út frá forsendum 2018 um skuldastöðu og íbúaþróun. Samkvæmt þeim fengu sveitarfélögin á Vestfjörðum samtals 2.281 milljónir króna. Í hlut hvers þeirra kæmi:

Ísafjarðarbær fengi samtals 594 milljónir króna, sem sundurliðast þannig að skuldajöfnunarframlagið yrði 400 milljónir króna, 100 milljónir króna yrði fast framlag vegna þátttöku í sameiningu og 94 milljónir króna kæmu sem byggðaframlag vegna þess að íbúaþróunin hefur verið undir landsmeðaltali síðustu fimm ár.

Bolungavíkurkaupstaður fengi 401 milljón króna. Af því færi 257 milljónir króna til lækkunar skulda , 100 milljónir væri fast framlag og 44 milljónir króna sem byggðaframlag. Súðavík fengi 109 milljónir króna, Vesturbyggð 441 milljón króna, Tálknafjarðarhreppur 165 milljónir króna, Strandabyggð 286 milljónir króna, Reykhólahreppur 120 milljónir króna, Árneshreppur 109 milljónir króna og Kaldrananeshreppur 106 milljónir króna.

Athglisvert er að fjögur sveitarfélög á Vestfjörðum fengju ekkert í skuldajöfnunarframlög af þeirri einföldu ástæðu að skuldir eru litlar. Það eru Reykhólahreppur, Súðavíkurhreppur, Árneshreppur og Kaldrananeshreppur. Fjölmennustu þrjú sveitarfélögin, Ísafjarðarbær, Vesturbyggð og Bolungavík fá hins vegar hámarksframlög til að lækka skuldir samtals um 978 milljónir króna.

Svo stefna ríkisins er að bjóðast til með framlögum úr ríkissjóði að lækka skuldir fjölmennari og skuldsettra sveitarfélaga og á sama tíma að hækka lágmarksíbúafjölda í sveitarfélagi fyrst í 250 íbúa og svo 1.000 íbúa sem gerir fámennari og skuldlausu sveitarfélögunum skylt að sameinast öðru sveitarfélagi.

DEILA