Reykhólar: Þ-H afgreidd í október

Útrunninn er frestur til að gera athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi Reykhólahrepps vegna Vestfjarðavegar 60. Sveitarstjórn hefur samþykkt svonefnda Þ-H  veglínu sem fer að hluta til um jaðar Teigsskógs.

Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri segir að nú fari sveitarstjórn yfir innsend erindi og muni svara þeim og í framhaldinu verði aðalskipulagsbreytingarnar  afgreiddar endanlega. Sagðist Tryggvi eiga von á því að það yrði í seinasta lagi á reglulegum fundi sveitarstjórnar í byrjun október, hugsanlega á aukafundi fyrr.

Alls bárust 44 erindi. Þar af voru 29 samhljóða frá einstaklingum og samtökunum ungir umhverfissinnar þar sem lýst var andstöðu við Þ-H leiðina.  Landvernd lýsti sem fyrr andstöðu sinni. Náttúrufræðistofnun Íslands ítrekði þá afstöðu sína að D2 jarðgangaleiðin valdi minnstum neikvæðum umhverfisáhrifum. Umhverfisstofnun telur jákvætt að veglínu hafi verið breytt og segir að umhverfismat hafi dregið fram kosti og galla þeirra leiða sem skoðaðar voru, en segir fátt um afstöðu stofnunarinnar til málsins. Skipulagsstofnun sendi inn langt bréf með ýmsum athugasemdum um texta skipulagstillögurnnar og greinargerðarinnar sem henni fylgir.

En það var einnig stuðningur við skipulagstillöguna. Skógræktin ítrekaði stuðning sinn við Þ-H leiðina sem og Samgöngufélagið. Sveitarfélögin Vesturbyggð og Strandabyggð gera ekki athugasemd og Vesturbyggð tók fram að það fagnaði tillögunum.

Landeigendur á Hallsteinsnesi og Gröf mótmæla tillögunum og landeigandi að Skálanesi segist ekki sætta sig við veglínuna um Melanesið. Þá sendi eigandi Skáldstaða inn erindi og gerði athugasemdir við misræmi í greinargerð skipulagstillögunnar.

 

DEILA