Önundarfjörður: 18 syntu Sæunnarsundið

Hólmfríður Bóasdóttir sundkappi og hótelhaldari í Holti komin í land.

Í fallegu veðri á laugardaginn lögðu 18 ofurhugar af stað yfir fjörðinn og freistuðu þess að synda í klauffar kýrinnar Sæunnar sem synti sér til lífs í október 1987. Sjávarhiti var tæpar 10 gráður og svartalogn framan af degi. Til aðstoðar sjósundsköppum voru björgunarsveitir á Flateyri og þorpunum í kring og 17 kajakræðarar slógust í hópinn til að tryggja öryggi allra. Lagt var upp frá Flateyrarodda kl. 13:00 og stefnan tekin í Valþjófsdal, þar voru þau  Sigríður og Guðmundur Steinar og þeirra fólk tilbúið með teppi, kaffi og skúffukökur.

Björgunarsveitin hafði komið fyrir nokkrum fiskikörum og Arna sendi mjólkurbíl með heitu vatni svo hægt væri að bjóða syndurum í hitann þegar á land var komið handan fjarðar.

Þetta er í annað sinn sem blásið er til sjósunds af þessu tilefni, ef frá er talið sund Sæunnar sjálfrar. Í fyrra lögðu 11 sjósundshetjur af stað og allar komust þær fyrir eigin vélarafli í land, 2,5 – 3,5 km, allt eftir því hve miðið var gott og ekki látið reka, fyrsti kom að landi eftir 40 mínútur, sá síðasti á sextugustu mínútu. Eins og áður sagði voru það 18 ofurhugar sem lögðu í sjóinn í dag og komust 16 yfir fjörðinn án aðstoðar. Tvær nýttu sér þjónustu björgunarsveita og fengu far svona lokasprettinn.

Straumurinn var heldur erfiður í ár og tók það fyrsta syndarann 50 mínútur komast yfir og ganga á land við Sæunnarhaug, það var Hólmfríður Bóasdóttir hótelhaldari í Holti sem leiddi hópinn og blés hún vart úr nös þegar hún klöngraðist með örlitla sjóriðu upp grýtta fjöruna í dalnum.

 

Sundkappar að ylja sér eftir sundið.
Myndir: aðsent.
DEILA