Ófeigsfjarðarheiði: steingervingar kortlagðir

Umhverfisstofnun hefur beint þeim tilmælum til Vesturverks og Árneshrepps að steingervingar verði kortlagðir áður en til framkvæmda kemur við vegagerð upp á Ófeigsfjarðarheiði, sem áformað er á næsta sumri. Birna Lárusdóttir sagði í samtali við Bæjarins besta að hópur vísindamanna frá  Verkís hafi farið um svæðið á þriðjudaginn og kortlagt svæðið. Unnið verði svo úr þeirri rannsókn og taldi Birna að steingervingarnir myndu ekki hafa mikil áhrif á framkvæmdir.

Guðlaugur Ágústsson, varaoddviti sagði að erindi Umhverfisstofnunar yrði tekið fyrir á fundi hreppsnefndar í næstu viku.

Steingervingar eru friðaðir og ber að forðast að spilla þeim við framkvæmdir. Náttúruverndarsamtökin Ófeig tilkynntu um fundinn í júlí og skrifuðu bréf til Náttúrufræðistofnunar Íslands og fór fram á að stofnunin hlutaðist til um rannsóknir. Fóru  menn á vegum stofnunarinnar  á vettvang og gáfu út skýrslu um athugunina. Niðurstaða hennar var að ástæða væri til að skoða svæðið frekar. Það hefur nú verið gert.

DEILA