Niðurgreiðslur á áætlunarakstri höfuðborgarsvæðinu rúmur milljarður króna

Strætisvagn í áætlunarferð á landsbyggðinni. Mynd: skessuhorn.is

Í fjárlagafrumvarpi fyrir 2020 kemur fram að varið verður 1.038 milljónir króna til áætlunaraksturs á höfuðborgarsvæðinu. Fjárhæðin var 987 milljónir króna á þessu ári. Þetta er töluvert hærri fjárhæð en varið er til áætlunaraksturs á landsbyggðinni. Á næsta ári verður fjárhæðin 681 milljónir króna og hækkar frá þessu ári um 45 milljónir króna.

Á fjögurra ára tímabili 2019 til og með 2022 er ráðstafað 4.037 milljónum króna inn á höfuðborgarsvæðið til að styðja við áætlunarakstur en 2.678 milljónum króna á sama tíma á landsbyggðinni.

Til ferjureksturs verður varið um 1,2 milljarði króna á næsta ári. Hæst fjárhæð rennur til Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs 659 milljónir króna. Breiðafjarðaferjan Baldur fær 279 milljónir króna, Grímseyjarferjan Sæfari 145 milljónir króna og Hríseyjarferjan Sævar 124 milljónir króna.

Til áætlunarflugs verður varið 427 milljónum króna á næsta ári Flugfélagið Ernir fær 279 milljónir króna, en heldur uppi áætlun m.a. til Gjögurs og Bíldudals og Norlandair á Akureyri fær 148 milljónir króna, en það er með áætlunarflug til Grímseyjar og Þórshafnar.

DEILA