Lýðskólinn á Flateyri settur á laugardaginn

Runólfur Ágústsson, stjórnarformaður flytur setningarávarp sitt. Myndir: Páll Önundarson.

Lýðskólinn á Flateyri var settur í annað sinn á laugardaginn. Troðfullt var út úr dyrum í Félagsheimilinu á Flateyri við setningarathöfnina. Sama dag var svo haldið sérstakt málþing um lýðskóla að viðstöddum Menntamálaráðherra Lilju Alfreðsdóttur. Þar voru mættir fulltrúar annarra lýðskóla á landinu sem tóku þátt í málþinginu.

Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar sagði í samtali við Bæjarins besta að borist hefðu um 60 umsóknir en aðeins hefði verið hægt að taka inn 28 nemendur. Kennsla hefst í dag samkvæmt stundaskrá. Að sögn runólfs hefur sjálfseignarstofnun sem komið var á fót fyrir lýðskólann keypt húsnæði af bæjarsjóði Ísafjarðarbæjar. Landsbnakinn lánaði fyrir kaupunum. Heimavist skólans er á efri hæð hússins og vonast er til þess að neðri hæð hússins verði tekin í notkun um áramótin.

Í setningarávarpi sínu lagði Runólfur áherslu á að í  Lýðskólanum á Flateyri hefði fólk frelsi til menntunar út frá sínum einstaklingsbundnum forsendum og  Því byggði skólinn ekki á prófum, einkunnum eða gráðum, heldur skapar hann nemendum sínum aðstæður og umgjörð til náms og menntunar.

„Lögð er áhersla á samveru, sjálfsskoðun, sjálfsrækt og lífsleikni þar sem einstaklingar bera virðingu hver fyrir öðrum ásamt því að bera ábyrgð á sjálfum sér og þátttöku sinni í námi og samfélagi. Í Lýðskólanum á Flateyri lærir fólk að horfa öðruvísi á sjálft sig, samferðamenn og lífið sjálft. Í skólanum ríkir jafnrétti og einstaklingar innan skólasamfélagsins taka virkan þátt í mótun samfélagsins og ráða sínum málum í sameiningu. Forsenda þess er samábyrgð, meðvitund og virkni.

Lýðskólinn á Flateyri vill hafa jákvæð áhrif á umhverfi, samferðamenn og samfélag nær og fjær. Okkur er umhugað um sjálfbærni, samspil umhverfis, efnahags, samfélags og velferðar og berum virðingu fyrir þörfum annarra um leið og við leyfum sjálfum okkur að njóta okkar.“

Frá málþinginu. Lilja Alferðsdóttir, menntamálaráðherra og Runólfur Ágústsson, stjórnarformaður Lýðskólans ásamt Óttari Guðjónssyni, stjórnarmanni.

 

DEILA