Landvernd safnar liði gegn Hvalárvirkjun

Síðustu tvö ár hafa deilur um Hvalárvirkjun magnast og orðið fyrirferðarmiklar í fjölmiðlum.

Fram að því bar lítið á ágreiningi um áform um virkjun Hvalár. Virkjunin fór tvisvar í gegnum Rammaáætlun og það var aðeins Landvernd sem hreyfði andmælum en ekki af neinum þunga á þessu stigi.  Góð samstaða var um þann rökstuðning að virkjun á Vestfjörðum væri tvímælalaust til bóta einkum fyrir Vestfirðinga.

En þetta reyndist svikalogn. Landvernd var á þessum tíma að einbeita sér gegn öðrum ákveðnum virkjunarkostum og um þá voru töluverð átök. Hvalárvirkjun var einfaldlega sett í bið meðan þau átök voru leidd til lykta.

Leiðin sem farin hefur verið síðustu tvö ár er kunnugleg og minnir til dæmis á deilur um veglínu við Vík í Mýrdal. Stofnuð eru samtök sem síðan er beitt í gegnum greiðan aðgang að fjölmiðlum. Þannig er hægt að margfalda áhrifamáttinn og láta frekar fámennan hóp virka sem mörg fjölmenn samtök í gegnum mismunandi kennitölur.

Fyrst Rjúkandi

Fyrst voru stofnum samtökin Rjúkandi. Það var í júlí 2017. Tilgangur þeirra er vernd náttúru Árneshrepps og lagst er eindregið gegn virkjun Hvalár. Heimili  og varnarþing samtakanna er í Árneshreppi og áskilið er að a.m.k. þrír stjórnarmanna eigi lögheimili í hreppnum. Samkvæmt ársskýrslu Rjúkanda eru 451 félagsmaður skráður í samtökin. það er tíu sinnum fleiri en búa í hreppnum. Engin félagsgjöld eru innheimt en tekið við frjálsum framlögum. Umhverfisráðuneytið styrkti samtökin um 200 þúsund krónur. Verði Rjúkanda slitið renna eignir þess til Landverndar eða sambærilegs félags. Það fer ekki á milli mála að sterk tengst eru milli Rjúkanda og Landverndar.

Rjúkandi hefur staðið að kærum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamál vegna Hvalárvirkjunar auk þess reyna að gera sveitarstjórnina tortryggilega í ákvörðunum sem varða virkjunaráformin.

Svo kom Ófeig náttúruvernd

Næst var stofnun Ófeigs í október 2018. Félagsmenn í því eru 30 – 40 eftir því sem næst verður komist. Viðfangsefnið er einkum Ófeigsfjarðarheiðin og einblínt er á víðernin sem röksemd gegn Hvalárvirkjun. Formaður Ófeigs er Sif Konráðsdóttir fyrrverandi lögfræðingur Landverndar undir stjórn Guðmundar Inga Guðbrandssonar sem  var framkvæmdastjóri og Sif fylgdi honum í Umhverfisráðuneytið sem aðstoðarmaður hans. Ófeig gaf strax út mikla skýrslu um Drangajökulsvíðernin sem kostar ekki minna en 2-3 milljónir króna og hefur ekki gert grein fyrir því hvernig kostnaðurinn var greiddur að öðru leyti en því að varaformaðurinn sagði að safnað hefði verið fyrir honum. Þessi samtök hafa bæst í hóp Landverndar, Rjúkandi og tveggja annarra samtaka Náttúruverndarsamtaka Íslands og Ungir umhverfissinnar sem standa að kæruflutningi og málflutningi gegn Hvalárvirkjun. Formaður síðastnefndu samtakanna  situr í einnig stjórn Landverndar.

Fluttu í Árneshrepp

Eitt af því sem er einkennilegt síðustu tvö árin eru að hjónin Sif Konráðsdóttir, lögfræðingur og Ólafur Valsson,dýralæknir skyldu flytjast í Árneshrepp einmitt í október 2017 fyrir tveimur árum og taka að sér að reka litla búð fyrir örfáa íbúa. Slíkur atvinnurekstur gat aldrei greitt nein laun sem munaði um og menn klóruðu sér í höfðinu yfir því hvað fyrir þeim vakti. Sif Konráðsdóttir varð  skömmu seinna aðstoðarmaður Umhverfisráðherra. Það að vísu stóð stutt yfir vegna mála úr fortíð aðstoðarmannsins, en sveitarstjórnarkosningar voru framundan í Árneshreppi og skömmu fyrir kosningarnar vorið 2018  hófust miklir fólksflutningar í hreppinn. Tilgangurinn var augljóslega að andstæðingar Hvalárvirkjunar næðu meirihluta í hreppsnefnd. Þau áform runnu út í sandinn sem kunnugt er en kosningarnar voru kærðar og er þeim kærumálum ekki lokið þótt Árneshreppur hafi þrisvar unnið málið til þessa.  Nú er málið fyrir Landsdómi og kærandinn: jú, Ólafur Valsson.

Jökulruðningar og steingervingar

Bryddað hefur verið upp á ýmsum nýmælum í þessi stríði Landverndar gegn Árneshreppi og Hvalárvirkjun. Landamerki jarða eru óvænt véfengt og á grundvelli þess er kært. Á einum stað finna landeigendur upp á því að vilja friða land sitt og auðvitað verður að hætta við virkjun annars staðar út af því. Þá uppgötvar Náttúrufræðistofnun Íslands að jökulruðningar við Drangajökul eru einstakir og að þá beri friða og auðvitað af einskærri tilviljun myndi það stöðva virkjun. Nóbelsverðlaunin í málatilbúnaðinum fær Ófeigs náttúruverndin. Liðsmenn Ófeigs fundu steingervinga sem eru auðvitað friðaðir, nema hvað og auðvitað voru steingervingarnir þar sem veg á að leggja. Að vísu hefur enginn haft áhuga á þessum steingervingum sem eru víðs vegar um landið í miklum mæli og aðeins einu sinni áður hefur verið gerð athugun og leitað að þeim þrátt fyrir fjölmargar framkvæmdir út um allar koppagrundir. Það er spurning hvað leitarflokkur Landverndar finnur næst. Kannski beinagrind af útdauðum rostungastofni, hver veit.

En eitt er víst að Umhverfisráðherrann og hjálparlið hans heldur áfram að leita.

Það er stóra pólitíska spurningin hvað Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn ætla lengi að bukta sig fyrir yfirgangi öfgafullra afla þegar kemur að framfaramálum á Vestfjörðum.

 

-k

 

 

DEILA