Kostnaður Reykhólahrepps 14 milljónir króna vegna Vestfjarðavegar 60

Frá fundi á reykhólum um Vestfjarðaveg.

Reykhólahreppur hefur greitt 29,6 milljónir króna vegna Vestfjarðavegar á árunum 2017 – 2019. Á móti hefur sveitarfélagið fengið endurgreitt 15,7 milljónir króna á árunum 2017 og 2018.  Mismunurinn er nærri 14 milljónir króna sem kostnaðurinn er hærri á þessum tíma. Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri segir að Vegagerðin eigi eftir að endurgreiða umtalsvert af kostnaðinum á árinu 2019. Á þessu ári er kostnaðurinn 6,2 milljónir króna.  Ekki er ljóst hve mikið af þeirri fjárhæð Vegagerðin muni endurgreiða, en kostnaður sveitarfélagins mun lækka úr 14 milljónum króna um það  sem nemur endurgreiðslunni.

Fram kemur í svari sveitarstjórans að reikningur Multiconsult hafi verið 8,3 milljónir króna. Af þeirri fjárhæð greiddi Verndum [Teigsskóg] 5,6 milljónir króna. Mismunurinn 2,7 milljónir króna er færður sem kostnaður á sveitarsjóð.

Mestur varð kostnaðurinn á árinu 2017, en þá varð hann 17,6 milljónir króna.  Endurgreitt eða tekjur sveitarfélagsins voru þá 6 milljónir króna. Á árinu 2018 varð kostnaðurinn 6 milljónir króna en tekjur 9,6 milljónir króna. Á þessu ári er kostnaður 6,2 milljónir króna sem fyrr segir og ekkert hefur enn verið fært sem tekjur.

DEILA