Ísafjörður: Sundabakki tillaga að matsáætlun lögð fram

Lögð hefur verið fram skýrsla unnin af Verkís vegna mats á umhverfisáhrifum er varðar fyrirhugaðrar dýpkunar og lengingu Sundabakka á Ísafirði. Markmið Ísafjarðarbæjar er að stækka viðlegukant við Sundabakka á Ísafirði og auka sjávardýpi utan hans þannig að stærri skemmtiferðaskip, allt að 140.000 tonn, geti lagst að bryggju í höfninni. geti lagst að bryggju. Með framkvæmdinni batnar þjónusta hafnanna og tekjur hennar aukast.

Í útdrætti skýrslunnar segir:

„Áformað er að lengja Sundabakkann um 300 m og dýpka framan við bakkann niður á 11 m dýpi. Ráðast þarf í landfyllingu innan við viðlegukantinn og verður hið uppdælda efni nýtt í fyllinguna. Umframefni verður nýtt í aðrar framkvæmdir eins og kostur er.
Í tillögu að matsáætlun er fyrirhugaðri framkvæmd og framkvæmdarsvæði lýst. Greint er frá helstu áhrifaþáttum framkvæmdarinnar og hvaða áhrifaþættir verða í brennidepli í mati á umhverfisþáttum. Fyrirliggjandi gögnum varðandi umhverfis- og áhrifaþætti framkvæmdarinnar er lýst og greint er frá frekari upplýsingaöflun sem nauðsynlegt er að ráðast í til að hægt sé að meta umhverfisáhrif framkvæmdar. Fjallað er um samræmi við gildandi skipulag og loks er farið yfir hvernig staðið verður að samráði og kynningu matsins.“

Stefnt er að því að hefja framkvæmdir sumarið 2020, þegar niðurstaða vegna mats á umhverfisáhrifum og framkvæmdarleyfi liggja fyrir. Eftir dýpkun og niðurrekstur stálþils mun landfyllingin standa í a.m.k. 6 mánuði. Þá verður gengið frá veitukerfum og yfirborði. Búast má við að verktíminn spanni 2-3 ár en vonast er til að framkvæmdum ljúki haustið 2022.

 

DEILA