Ísafjarðarbær: vilja örva íbúðabyggingar með niðurfellingu gatnagerðargjalda

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið bæjarstjóra að kortleggja þær lóðir sem tilbúnar eru til úthlutunar í sveitarfélaginu og gera tillögu til bæjarstjórnar um niðurfellingu gatnagerðargjalda vegna byggingar íbúðarhúsnæðis.

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri segir að forsaga málsins sé ákvörðun frá 2017 þar sem felld voru niður gatnagerðargjöld af byggingu íbúðarhúsnæðis á lóðum í Tunguhverfi og Seljalandi.

Ákvæðið varði til 1. maí 2018 og var ekki afturvirkt. Skilmálarnir voru að hefja þurfti framkvæmdir innan þessara tímamarka og ljúka þeim fyrir 1. maí 2020. Niðurfellingin tekur gildi við lokaúttekt og er gjaldfrestur veittur fram að henni. Ljúki framkvæmdum ekki fyrir 1. maí 2020 fellur lækkunin niður.

„Nú erum við að skoða hvort framlengja beri aftur. Meta ávinninginn og hvernig tekist hefur til með þessa aðgerð, þ.e. að fella gatnagerðargjöld niður til að koma til móts við þá sem hafa hug á að byggja.“ segir Guðmundur.

DEILA