Ísafjarðarbær styður sameiningartillögu ríkisstjórnarinnar

Frá fundi bæjarstjórnar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri segir að löngum hafi verið ljóst að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar er alltaf til í samtal við önnur sveitarfélög um samstarf og sameiningar. Nú sem fyrr.

Guðmundur sat aukaþing Sambands íslenskra sveitarfélaga á laugardaginn en hafði ekki atkvæðisrétt. Um ályktun þingsins segir Guðmundur:

„Annars fannst mér merkilegt að sjá hversu mikinn stuðning málið fékk. Meðal annars frá fulltrúum sveitarfélaga sem falla undir þetta 1000 íbúa viðmið. Fyrirfram hefði ég búist við meiri andstöðu fulltrúa smærri sveitarfélaga ef ég á að segja alveg eins og er.“

Svo bætir Guðmundur við:

„En það sem kannski situr eftir í mínum huga frá þinginu er hversu lítið okkur hefur tekist að fjalla um hið raunverulega viðfangsefni í þessu öllu saman. Þ.e. þjónustuna við íbúana og hvaða leiðir við viljum fara til að uppfylla lögbundið hlutverk sveitarfélaga og mæta væntingum fólksins sem þar býr. Sú umræða kafnar jafnan í einhverju karpi um ímyndaða línu í ósýnilegum sandi. Sérstaklega hérna fyrir vestan.“

Þrír fulltrúar Ísafjarðarbæjar greiddu þannig atkvæði, samkvæmt heimildum Bæjarins besta að Arna Lára Jónsdóttir studdi sameiningartillöguna, en Marzellíus Sveinbjörnsson og Hafdís Gunnarsdóttir sátu hjá. Hafdís sagði í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að hún hafi í raun verið hlynnt tillögunni en vissi af andstöðu flestra sveitarfélaga á Vestfjörðum við hana. „Verandi formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga fannst mér því réttast að sitja hjá, sem ég gerði.“

Á fimmtudaginn samþykkti bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar einróma á fundi sínum ályktun þar sem lýst er yfir stuðningi við sameiningarátakið á forsendum íbúanna.

Ályktunin í heild:

 

„Framtíðarsýn og meginmarkmið fyrir árin 2019-2033

 

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar tekur undir og er sammála þeirri framtíðarsýn, sem sett er fram í þingsályktunartillögunni, að Ísland verð                               i í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Að áhersla verði lögð á að nýta tækni sem best til að tengja saman byggðir landsins, en jafnframt tengja Ísland við umheiminn. Allt í sátt og góðu jafnvægi við umhverfið.

 

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fagnar því að sjá ríka stoð og skírskotun í stefnumörkun lögbundinnar byggðaáætlunar og sóknaráætlunum. Þá sérstaklega hvað varðar það meginmarkmið að efla sjálfbærar byggðir og sveitarfélög um allt land. Fjölmargar aðgerðir núgildandi byggðaáætlunar kallast einmitt á við þessa sýn.

 

Aðgerðaáætlun 2019-2023

 

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar telur brýnt að árétta að leiðarstef slíkrar aðgerðaáætlunar á vettvangi sveitarstjórnarstigsins verði alltaf að vera bætt þjónusta. Tryggja verður í hvívetna að sveitarfélög hafi burði til að veita íbúum framúrskarandi þjónustu og hafi getu til að annast lögbundin verkefni.

 

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar tekur undir þau sjónarmið sem koma meðal annars fram í minnisblaði Byggðastofnunar að veglegur fjárhagslegur stuðningur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sé nauðsynlegur til að styðja við markmið um sameiningar sveitarfélaga. Tryggja þarf að sjóðurinn fái til þess sérstaka fjármögnun frá ríkissjóði svo ekki þurfi að skerða hefðbundin framlög sjóðsins til sveitarfélaga til að fjármagna sameiningarstuðning. Ef ekki kemur til sérstaks fjárstuðnings ríkissjóðs má ætla að sveitarfélög sem uppfylla stærðarmörk nú þegar, og ekki munu sameinast öðrum, verði fyrir skerðingu á framlögum vegna fjárstuðnings við þau sveitarfélög sem munu sameinast.

 

Í aðgerðaáætluninni kemur skýrt fram að stefnt verði að því að jafna tækifæri til atvinnu og aðgengis að þjónustu. Þessar áherslur eiga sér einnig stoð í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024,  meðal annars í áformum um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni og fjölgun starfa án staðsetningar, þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki í ráðuneytum.

 

Í meginatriðum samræmast því tillögurnar þeirri sýn bæjarstjórnar ísafjarðarbæjar að framtíð samfélagsins byggi á aukinni sjálfbærni á sviði stjórnsýslu, samfélags og í atvinnulífi sveitarfélaga. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar er tilbúin til aukins samstarfs, samvinnu og jafnvel sameiningar á forsendum íbúanna.“

 

DEILA