Ísafjarðarbær 9. skuldsettasta sveitarfélagið

Í úttekt Haraldar Líndals Haraldssonar fyrir Bolungavíkurkaupstað er að finna yfirlit yfir skuldir og skuldbindingar sveitarfélaga, bæði A og B hluta sem hlutfall af tekjum ársins 2017.

Þar kemur fram að Ísafjarðarbær er 9. skuldsettasta sveitarfélag landsins og nema skuldirnar 144% af tekjum sveitarfélagsins. Bolungavíkurkaupstaður er í tíunda sæti og skuldar 143% af tekjunum.  Vesturbyggð er í 20. sætinu með 114% skuldir. Strandabyggð er í 28. sæti og skuldar 89% af tekjum sínum og á hæla þeirra er Tálknafjarðarhreppur með tæplega 89%. Önnur vestfirsk sveitarfélög skulda minna en 80% af tekjum. Það eru fámennu sveitarfélögin Reykhólahreppur, Kaldrananeshreppur, Árneshreppur og Súðavíkurhreppur.

Fjölmennu sveitarfélögin skulda mikið – fámennu skulda lítið

Mörg af fjölmennustu sveitarfélögum landsins eru á skuldalistanum. Reykjanesbær er með tæplega 20 þúsund íbúa en er skuldahæst með 204% af tekjum ársins 2017. Reykjavíkurborg er með 130 þúsund íbúa og skuldar 172% af tekjum sínum og er fjórða skuldsettasta sveitarfélagið. Hafnarfjarðarkaupstaður er sjötta skuldsettasta sveitarfélagið en er með 30 þúsund íbúa. Á listanum eru 8 sveitarfélög sem eru með færri en 1000 íbúa en liðlega 20 sem eru fjölmennari. Langflest fámennu sveitarfélaganna 39 hafa haldið skuldum sínum innan við 80% mörkin.

Fjölmennu sveitarfélögin fá skuldajöfnunarframlag

Í tillögu ríkisstjórnarinnar sem ætluð er til þess að fækka sveitarfélögum með því að knýja sveitarfélög með færri íbúa en 1000 til sameiningar er gert ráð fyrir að verja 9,5 milljarði króna til þess að lækka skuldir sameinaðra sveitarfélaga.

Vegna góðrar fjárhagsstöðu fer ekkert til að lækka skuldir Súðavíkurhrepps, Kaldrananeshrepps, Árneshrepps og Reykhólahrepps þegar kemur til sameiningar þeirra við annað sveitarfélag, en sveitarfélögin eru öll undir 1000 íbúa markinu.  Gert er ráð fyrir að lækka skuldir Tálknafjarðarhrepps um 31 milljón við sameiningu, Vesturbyggðar um 320 milljónir króna, Bolungavíkur um 257 milljónir króna og Ísafjarðarbær fengi hámarkið 400 milljónir króna.

Þannig fengi t.d. Ísafjarðarbær 400 milljónir króna til lækkunar skulda ef bærinn sameinaðist Súðavík eða Árneshrepp svo dæmi séu nefnd. Fyrir Vestfirðinga fengist mest greitt til skuldajöfnunar ef Ísafjarðarbær og Vesturbyggð sameinuðust. Þá yrðu greiddar 720 milljónir króna. Fleiri en tvö sveitarfélög geta sameinast og ef Ísafjarðarbær, Vesturbyggð og Bolungavík sameinuðust í eitt fengjust 977 milljónir króna til lækkunar skulda sveitarfélaganna þriggja. Ef Tálknafjörður slægist í hópinn fer fjárhæðin yfir einn milljarð króna og verður 1.008 milljónir króna.

Reykjavík fær 400 m.kr.

Athyglisvert er að fjölmennu sveitarfélögin Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Garðabær, Reykjanesbær og jafnvel Hveragerðisbær, þar sem formaður sambands íslenskra sveitarfélaga er bæjarstjóri,  fengju öll hámarksframlag 400 milljónir króna ef þau sameinuðust öðru sveitarfélagi. Ef Kjósarhreppur sameinaðist Reykjavík myndi Jöfnunarsjóður greiða 400 milljónir króna til Reykjavíkurborgar til að lækka skuldir borgarinnar. Hins vegar fengi Kjósahreppur ekkert vegna góðrar stöðu sinnar.  Það er því töluverður hvati fyrir Reykjavík að fá fámennan skuldlitlan hrepp til að sameinast sér.

DEILA