í Hömrum sunnudag: Peter Máté flytur öll píanóeinleiksverk John Speight

Píanótónleikar með verkum eftir John Speight verða sunnudaginn 8. september kl. 15 /í Hörmum, Ísafirði.

Klukkustund af íslenskri samtímapíanótónlist í 17 stuttum köflum er þverskurður af tónsmíðaferli John Speight. Peter Máté hefur síðastliðin tvö ár unnið markvisst að því að læra öll píanóverk tónskáldsins.

Frjáls framlög og  aðgangseyrir rennur til hljóðfærakaupa fyrir Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Í fréttatilkynningu segir að sjaldgæft sé að heilir tónleikar séu tileinkaðir einu nútímatónskáldi. „Hér flytur Peter Máté sjö verk fyrir einleikspíanó eftir John Speight en verkin spanna fimm áratugi. Því má segja að um sé að ræða þverskurð af tónsmíðaferli John Speight, elsta verkið samið á stúdentsárunum tónskáldsins og það yngsta, sem er jafnframt nýjasta verk John Speight, var samið 2018 og verður frumflutt á þessum tónleikum. Peter hefur flutt mörg píanóverka Johns Speight í gegnum tíðina en síðastliðin tvö ár hefur hann unnið markvisst að því að læra öll píanóverk tónskáldsins.“

Tónleikarnir eru styrktir af Tónlistarsjóði.

John Speight fæddist á Englandi. Hann stundaði söngnám við Guildhall School of Music and Drama í Lundúnum á árunum 1964-72. Jafnframt lagði hann stund á tónsmíðar við sama skóla, undir handleiðslu B. Orr, og var í einkatímum hjá hinu þekkta tónskáldi Richard Rodney Bennett. Árið 1972 fluttist hann til Íslands og hefur verið búsettur hér síðan og er íslenskur ríkisborgari.

Peter Máté píanóleikari er af ungversku bergi brotinn en hann er fæddur í Rožňava í Tékkóslóvakíu. Hann hefur verið búsettur á Íslandi frá árinu 1990. Peter stundaði píanónám frá unga aldri en lauk einleikara- og kennaramastersgráðu úr Tónlistarakademíunni í Prag. Á námsárunum vann hann til margra verðlauna í heimalandi sínu og síðar í alþjóðlegum keppnum, svo sem í Vercelli og Enna á Ítalíu á árunum 1986 og 1989.

Peter hefur haldið fjölmarga einleikstónleika og tekið þátt í kammertónleikum víða á Íslandi með tónlistarhópum á bovð við Tríó Reykjavíkur og Kammertríó Kópavogs og farið í tónleikaferðir til Frakklands, Bretlands og Bandaríkjanna auk austur-Evrópulanda.

Peter er prófessor við Listaháskóla Íslands og kennir einnig við Menntaskólann í tónlist. Hann hefur haldið masterklassa við fjölda erlendra háskóla og tónlistarskóla á Íslandi.

 

 

DEILA