Hvalá:Landsnet andmælir fullyrðingu um lítil áhrif Hvalár á öryggi

Landsnet ber til baka fullyrðingu formanns Landverndar Tryggva Felixsonar, sem hann setti fram í grein í Fréttablaðinu síðastliðinn föstudag að vandséð sé að Hvalárvirkjun bæti afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum. Í greininni var Tryggvi að svara Jónasi Þór Birgissyni, bæjarfulltrúa í Ísafjarðarbæ og segir að Landsnet hafi upplýsti Landvernd um að allar truflanir á afhendingu rafmagns á Vestfjörðum á árinu 2018 hafi orðið vegna bilunar vestan Kollafjarðar. Það er vestan þess staðar sem ráðgert er að tengja Hvalárvirkjun við landsnetið.

Bæjarins besta bar þessi ummæli undir Landsnet og óskaði eftir skýringum.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnet sagði í svari sínu að „á árinu 2018 eru skráðar fimm fyrirvaralausar truflanir í raforkuflutningi á Vestfjörðum. Þrjár þeirra komu fram í tengivirkinu í Mjólká að Keldeyri, ein á tengingunni milli Glerárskóga og Geiradals og ein á tengingunni milli Blöndu og Laxárvatns.“

Það þýðir af af fimm fyrirvaralausum truflunum urðu tvær fyrir austan Kollafjörð og þrjár vestan Kollafjarðar samkvæmt svari upplýsingafulltrúans og ber það því ekki saman við fullyrðingu formanns Landverndar.

Þá segir Steinunn Þorsteinsdóttir að þegar fjallað er um afhendingaröryggi raforku sé engan veginn nóg að horfa á eitt ár. Hún segir afar óvarlegt að draga ályktanir um afhendingaröryggi út frá einu ári. Slíkar ályktanir eru tölfræðilega ómarktækar.

„Til þess að fá marktækar upplýsingar um slíkt þarf að skoða amk tíu ára samhangandi kafla. Afhendingaröryggið getur verið afar misjafnt milli ára og ýmsir þættir spilað þar inn í, s.s. veðurfar.“

Aðspurð um það hvort ástæða væri til að endurmeta áhrifin á afhendingaröryggið segir í svari upplýsingafulltrúa Landsnets:

„Það er engin ástæða til að endurmeta mat á áhrifum aukinnar orkuvinnslu á afhendingaröryggi á Vestfjörðum, eins og því er lýst í skýrslu Landsnets frá því í mars sl.“

 

DEILA