Háskólasetrið: Rusl í sjónum áberandi þessa vikuna

Hluti hópsins sem tók þátt í flokkun og greiningu ruslsins í vinnustofunni. Mynd: uw.is

Þessa vikuna er ýmislegt sem tengist rusli í sjónum áberandi í Háskólasetri Vestfjarða. Háskólasetrið er gestgjafi fyrir vinnustofu um efnið sem er hluti af verkefninu „Sjávarrusl á norðurslóðum“ eða The Arctic Marine Litter Project. Vinnuna leiða þau Wouter Jan Strietman og Martine van den Heuvel-Greve frá Wegeningen háskólanum í Hollandi. Í verkefninu fást þau við að rannsaka sjávarrusl á norðurslóðum einkum til að greina uppruna ruslsins. Í verkefninu hafa þau nú þegar rannsakað rusl sem hefur verið safnað á ströndum Svalbarða, Jan Mayen og Grænlandi en nú bætist Ísland í hópinn.

Í vinnustofunni verður unnið með rusl sem nemendur í haf- og strandsvæðastjórnun söfnuðu í grennd við Hólmavík fyrir fáeinum dögum. Meðal nemendanna sem tóku þátt í því er Amy O’Rourke en á föstudaginn kemur mun hún einmitt verja meistaraprófsritgerð sína um þetta efni þar sem hún beinir sjónum að sjávarrusli á Vestfjörðum.

Auk nemenda í haf- og strandsvæðastjórnun og sjávarbyggðafræði koma fleiri aðilar á svæðinu að verkefninu. Hafrannsóknastofnun á Ísafirði veitir aðstoð og ráðgjöf við flokkun og greiningu, nemendur frá Menntaskólanum á Ísafirði taka þátt í flokkun og greiningu ruslsins á morgun, ásamt fulltrúm frá Ísafjarðarbæ og Umhverfisstofnun.

Á föstudaginn mun Wouter Jan Strietman kynna verkefnið í Vísindaport sem hefur þá göngu sína á ný. Erindið hefst kl. 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs og er að vanda opið öllum áhugasömum.

Frá þessu er greint á vef Háskólasetursins.

DEILA