Hábrún hf. eykur fiskeldi í 700 tonn

Matvælastofnun hefur unnið tillögu að rekstrarleyfi fyrir Hábrún hf. vegna sjókvíaeldis á regnbogasilungi og þorski í Skutulsfirði í Ísafjarðardjúpi. Um er að ræða stækkun á eldri rekstrarleyfum úr 400 tonnum af laxi, regnbogasilungi og þorski í 700 tonn af regnbogasilungi og þorski. Þar af eru 650 tonn af regnbogasilungi og 50 tonn af þorski. Framkvæmdin er ekki háð mati á umhverfisáhrifum skv. ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu.

Athugasemdir við tillöguna og fylgigögn skulu vera skrifleg og send Matvælastofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 10. október 2019.

Í tillögunni segir:

„Rekstarleyfið er gefið út miðað við fyrirliggjandi mat Hafrannsóknastofnunar á burðarþoli og áhættumati vegna erfðablöndunar. Heimilt er að endurskoða forsendur leyfisins ef breytingar verða á burðarþolsmati og/eða áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Rekstrarleyfið er bundið við, komi til þess að eldið sé stundað samhliða eldi annarra aðila, að leyfishafi lýsi yfir að hann viðhafi samræmda útsetningu seiða og hvíld eldissvæða innan sjókvíaeldissvæðis. Jafnframt er rekstrarleyfið bundið við að leyfishafi vinni, í slíkum tilvikum og eftir atvikum, með öðrum leyfishöfum sameiginlega að sjúkdómavörnum, viðbrögðum við sjúkdómum og vöktun laxalúsar. Á gildistíma leyfisins skal fara fram vöktun og rannsóknir af hálfu rekstrarleyfishafa til að meta vistfræðileg áhrif á nánasta umhverfi eldisstöðvarinnar. Útsetning seiða á eldissvæði skal taka mið af umhverfisaðstæðum eldissvæðisins á hverjum tíma.“

DEILA