Framsókn: Auðlindir skulu vera í þjóðareign

Landsstjórn og þingflokkur Framsóknar hélt sinn árlega sameiginlega vinnufund á Sauðárkróki í gær og í dag.

Fundurinn samþykkti eftirfarandi:

 

Auðlindir skulu vera í þjóðareign

Sameiginlegur fundur Landsstjórnar og þingflokks Framsóknarflokksins leggur höfuðáherslu á þá stefnu flokksins að auðlindir séu þjóðareign. Því mun Framsóknarflokkurinn fylgja því fast eftir á kjörtímabilinu að slíkt ákvæði verði sett í stjórnarskrá landsins.

Raforkuverð jafnað

Einnig setur fundurinn það í forgang að flutningskostnaður raforku verði jafnaður á kjörtímabilinu, sem er ein af mikilvægustu byggðaaðgerðum sem ráðast þarf í. Framsóknarflokkurinn hefur ávallt staðið vörð um að í landinu búi ein þjóð sem þarf að hafa jafnan aðgang að grunnþjónustu og þarna er mikilvægt skref stigið í þá átt.

Innviðir í eigu þjóðarinnar

Þá áréttar fundurinn þá stefnu Framsóknarflokksins að margir mikilvægustu innviðir samfélagsins séu í eigu þjóðarinnar og þannig njótum við öll ágóðans af þeim. Um er að ræða innviði eins og Landsvirkjun, Landsnet, RARIK og Flugstöð Leifs Eiríkssonar svo einhverjir séu nefndir.

DEILA