Flateyri: Fjölmennasta Gamanmyndahátíðin frá upphafi!

Gamall bræðslutankur þjónar hlutverki kvikmyndahúss á Gamanmyndahátíðinni.

Iceland Comedy Film Festival fór fram um helgina að viðstöddu miklu fjölmenni, en hátíðin hefur tæplega tífaldað gestafjölda sinn á sínum fyrstu fjórum árum. Meðal helstu viðburða hátíðarinnar í ár má nefna Tónleika-bíósýningu Tónlistarskóla Ísafjarðar, þar sem nemendur léku undir Buster Keaton myndinni The Boat undir troðfullu húsi. Þá var Edda Björgvinsdóttir heiðruð fyrir framlag sitt til gamanmyndagerðar á Íslandi á undan sérstakri hátíðarsýningu á Stellu í Orlofi ásamt því sem Arctic Fish bauð upp á Laxaveislu í anda Stellu Löve. Þann 25 september verða 10 ár frá því að Algjör Sveppi og leitin að Villa var frumsýnd og var því fagnað með barnasýningu að viðstöddum Sveppa.

Tvær vinnusmiðjur

Haldnar voru tvær vinnusmiðjur í tengslum við hátíð ársins, Leiklistarskóli Borgarleikhússins var með námskeið í persónusköpun fyrir börn og þá var í fyrsta sinn haldin 48 stunda gamanmyndakeppni, þar sem þrjú lið voru skráð til leiks og unnu gamanmynd á 48 klukkustundum undir handleiðslu Arnórs Pálma, þar sem þema ársins var Fiskur. Myndin Ballarahaf eftir þá Margeir Haraldsson, Andra Fannar Sóleyjarson og Rúnar Inga Guðmundsson var kosin fyndnasta mynd 48 stunda keppninnar af áhorfendum.

Kanarí fyndnust

Einnig var kosið um fyndnustu myndi hátíðarinnar og var það heimildarmyndin Kanarí eftir þær Magneu B. Valdimarsdóttir og Mörtu Sigríði Pétursdóttir sem áhorfendum þótti fyndnust og skemmtilegust. Myndin fjallar um þá einstöku íslensku menningu sem hefur tekið sér bólfestu á Kanarí.

Fyndnasta erlenda stuttmyndin, að mati áhorefnda, var Robbish Robbers eftir Anders Teig, myndin fjallar um nokkra bankaræninga og eina flugu.

Fyndnasta erlenda gamanmyndin í fullri lengd var Sawah eftir leikstjóran Adolf El Assal, þar sem íslenska leikkonan Elísabet Jóhannesdóttir fer með eitt aðalhlutverkið. Myndin fjallar um Skaarab, plötusnúð frá Egyptalandi sem er boðið að spila í Brussel. Á leiðinni glatar hann vegabréfinu sínu sem verður til þess að hann er álitinn flóttamaður og þarf að beita öllum ráðum til að komast á leiðarenda.

Flateyringurinn Eyþór Jóvinsson var frumkvöðull að því að koma kvikyndahátíðinni á laggirnar. Það er með miklum ólíkindum hversu hratt hátíðin hefur vaxið og dafnað og er orðin að menningarvirðburði á landsvísu.

Arjan Wilmsen og Tom Reinders tóku myndirnar.

Þorsteinn F. Þráinsson og Eyþór Jóvinsson í Laxaveislu Arctic Fish í anda Stellu Löve.

 

Nemendur Tónlistarskóla leika undir Buster Keaton myndina The boat.
Sigurður Hafberg (t.v.) sem lék eitt aðahlutverkið í sigurmynd 48 stunda keppninnar ásamt aðstandanda myndarinnar.

Á móti sól lokuðu hátíðinni á smekkfullum Vagninum.
DEILA