Fjölmenni á samráðsfundi um sértækar aflaheimildir

Frá samráðsfundinum á Ísafirði.

Vel var mætt á fund um ráðstöfun sérstækra aflaheimilda sem haldinn var á ísafirði fyrir síðustu helgi. Starfshópur sem sjávarútvegsráðherra hefur skipað stóð fyrir fundinum. Verkefni starfshópsins er að koma með tillögur um ráðstöfun 5,3% aflaheimilda sem varið til margvíslegra sértækra aðgerða, svo sem byggðakvóta, sértæks byggðakvóta, línuívilnunar, skelbóta og strandveiða. Umræddar sértæku aflaheimildir jafngilda um 20 þúsund þorskígildum ár hvert.

Starfshópurinn á að athuga hvort markmiðum þeim sem sett voru með umræddum aflaheimildum hafi verið náð og eftir atvikum að leggja til breytingar á ráðstöfun þeirra.

Til fundarins voru sérstaklega boðaðir fulltrúar sveitarstjórnarstigsins og hagsmunaaðila á Vestfjörðum.

Þóroddur Bjarnason, prófessor á Akureyri er formaður starfshópsins og hann sagði að búið væri að halda samráðsfundi á Suður- og Vesturlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum og síðasti samráðsfundurinn yrði á Austurlandi 8. október. Hann sagði að stefnt að því að skila skv. áætlun 1. nóvember.

Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta tóku margir til máls og viðruðu sjómarmið sín og kom fram nokkur gagnrýni á úthlutun byggðakvótans. Engar beinar tillögur voru lagðar fram að öðru leyti en því að Guðmundur Halldórson, skipstjóri í Bolungavík lagði fram formlega tillögu til nefndarinnar. Leggur Guðmundur til að línuívilnum verði aukin úr 20% í 30% fyrir báta sem róa með landbeitta línu.

Rökstuðningur Guðmundar er að aukin ívilnun muni gera línuútgerðina samkeppnisfærari við beitningavélabátana og myndi þannig viðhalda störfum í landi við beitninguna.

Í starfshópnum eru fimm nefndarmenn og var aðeins Þóroddur staddur á Ísafirði. Aðrir nefndarmenn tóku þátt í fundinum með fjarfundarbúnaði.

DEILA