Ég elska þig

Ég elska þig eru fallegustu orð íslenskunnar. Þau eru falleg af því að í einfaldleika sínum fanga þau svo ótrúlega margar tilfinningar í einu. Það er nefnilega hægt að elska svo margt og á svo margan hátt.
Flestir tengja orðin ‚Ég elska þig‘ við ást tveggja einstaklinga. Rómantíska ást. Það er dásamleg tilfinning að vera ástfanginn og það er engin tilviljun að milljónir skáldsagna, ljóðabálka og dægurlaga hafa verið tileinkaðir ást á milli tveggja einstaklinga.
En það sem er svo dásamlegt við ástina er að það er svo mikið til af henni. Hún er allt í kringum okkur og við erum öll á einn eða annan hátt að leita að ástinni í lífi okkar í öllum þeim birtingamyndum sem hugsast getur.
Já, það er svo margt sem er hægt að elska. Við elskum náttúruna, við elskum bæjarfélagið okkar, við elskum landið okkar. Við elskum foreldra okkar, börnin okkar, fjölskylduna okkar, gæludýrin okkar. Við getum elskað hlutina okkar, hljóðfærin, fötin, mublurnar og jafnvel Liverpool trefil sem Sigga systir gaf okkur 1984 þegar þeir urðu Evrópumeistrar. Svo er það sem er svo erfitt fyrir all of marga, að elska sjálfan sig.
Í þessari viku er Ástarvikan haldin í Bolungarvík og þá fögnum við fjölbreytileika ástarinnar. Ástinni á milli tveggja einstaklinga og alla þá aðra ást sem við öll geymum í hjörtum okkar. Ástin er lífið. Með því að meðtaka og gefa alla þá ást sem býr í hverjum manni þá eru við einu skrefi nær því að vera besta útgáfan af okkur sjálfum.
Allar upplýsingar eru á www.bolungarvik.is/astarvikan

Jón Páll Hreinsson, Bæjarstjóri Bolungavík.

DEILA