Dynjandishneykslið: skrifast á Rarik

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri í ræðustól. Mynd : Kristinn H. Gunnarsson.

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar segir að fráleitt sé að skrifa margra mánaða töf á því að taka í notkun í sumar snyrtingar við Dynjanda í Arnarfirði á misskilning milli stofnana. Ábyrgðin liggi hjá Rarik.

Í svari til Bæjarins besta segir Guðmundur:

„ég var að skoða gögn þessa máls og samskiptin í kerfi Ísafjarðarbæjar. Við eigum heilan helling af tölvupóstum, áminningum og ítrekunum sem fóru frá okkur út af þessu máli. Allt ferlið. Alla spottana. Þar var áréttað aftur og aftur og aftur að boltinn væri hjá Rarik. Á þessu lék enginn vafi. Að skrifa þetta á misskilning milli stofnana eða ýja að sinnuleysi starfsmanna Ísafjarðarbæjar er fráleitt. Ég skal fyrstur manna standa upp og gangast við seinagangi bæjarapparatsins þegar það á við. En þetta mál eigum við ekki. Þetta egg er alfarið á enninu á Rarik. Hreint og klárt.“

DEILA