Dynjandi: snyrtingar loks opnaðar í gær

Frá athöfninni í gær. Mynd: umhverfisráðuneytið.

Í sumar hefur ítrekað  skapast ófremdarástand við Dynjanda í Arnarfirði vegna skorts á snyrtingum. Mikill straumur ferðamanna var þangað frá skemmtiferðaskipunum sem koma til Ísafjarðar og fara þá daga, sem skipin eru, margar rútur þéttsetnar ferðamönnum til að skoða hina einstæðu náttúru.

Veitt var fjármagn til þess að bæta aðstöðuna við Dynjanda og í vor var unnið að því að koma upp frekari snyrtiaðstöðu en fyrir var, enda ekki vanþörf á. Fyrir tveimur mánuðum kom í ljós að þrátt fyrir að húsnæðið væri komið upp stóð á því að tengja aðstöðuna svo unnt yrði að taka hana í notkun.

Umhverfisstofnun stendur fyrir landvörslu á staðnum og þar fengust þau svo 16. júlí að

það lægi ekki fyrir á þessari stundu hvenær aðstaðan yrði tilbúin. „Tafir hafa orðið á þáttum sem varða skipulag og leyfismál sem tekur einhverjar vikur að klára“ sagði í svari Sigrúnar Ágústsdóttur sviðsstjóra.

Það var svo loks í gær, tveimur mánuðum síðar, sem þau svör bárust frá Umhverfisstofnun að snyrtingarnar yrðu teknar í notkun einmitt þann sama dag.

Í gær kom umhverfisráðherra til Dynjanda og veitti móttöku jörðinni Dynjanda sem gjöf frá Rarik.

DEILA