Bæjarráð Bolungavíkur hefur samþykkt sex breytingar á fjárhagsáætlun bæjarins. Fyrsta breytingin er tilkomin vegna kaupa bæjarins á fasteignum af Ríkiseignum í Bolungarvík. Um er að ræða fasteignirnar Höfðastíg 15 og 17, hluti Aðalstrætis 10-12 og hluti Miðstrætis 19. Verðið er í samræmi við verðmat Fasteignasölu Vestfjarða og er 34.840.000 kr.
Önnur breytingin eru 500 þúsund króna framlag til afreksbrautar Menntaskólans á Ísafirði. Þá er 3.500.000 kr hækkun útgjalda vegna framkvæmda við vatnsveitu að Völusteinsstræti. Tvær breytingar eru vegna borunar á tilraunholum fyrir Vatnsveitu Bolungavíkur samtals 20 milljónir króna, 2 milljónir króna fjármagnaðar með handbæru fé og 18 milljónir teknar að láni.
Loks er endurfjármögnun á skammtímalánum að fjárhæð 75 milljónir króna. Tekið verður lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga með 1,72% föstum verðtryggðum vöxtum til 15 ára.
Skammtímaskuldirnar eru tilkomnar vegna þriggja verkefna sem þarf að leggja út kostnað áður en opinberir aðilar greiða sinn hluta sem er 75-80% í þessum verkefnum. Þetta eru uppbygging tjaldsvæðiðs í Skálavík og útsýnispallur á Bolafjalli sem unnið er með Framkvæmdasjóði ferðamannastaða auk endurnýjunar stálþils og þekju á Brimbrjótnum sem unnið með hafnarsviði Vegagerðarinnar. Fjárhagsáætlun 2019 gerði ekki ráð fyrir að sveitarfélagið þyrfti að fjármagna heildarfjárfestingu í þessum verkefnum áður en til endurgreiðslu kæmi og því er þetta ójafna fjárstreymi farið að þrengja að lausafjárstöðu sveitarfélagsins, segir í skýringum með viðaukanum.